Búfesti byggir á Húsavík – íbúðirnar auglýstar í byrjun september

Um þessar mundir eru 12 íbúðir í byggingu á Húsavík á vegum Búfesti sem er húsnæðissamvinnufélag. Formaður Framsýnar skoðaði byggingasvæðið á dögunum. Hann fékk leiðsögn um svæðið en hópur iðnaðarmanna kemur að því að reisa húsin. Höfðavélar sáu um jarðvinnu og Fakta Bygg Ísland sér um að reisa húsin. Um er að ræða tvö 6 íbúða raðhús úr einingum sem koma frá Fakta Bygg í Noregi en Fakta Bygg á Íslandi er dótturfélag fyrirtækisins. Fakta Bygg á Íslandi er í eigu Húsvíkingana  Kristjáns Eymundssonar og Árna Grétars Árnasonar sem lengi hafa starfað og búið í Noregi. Aðaleigandi Fakta Bygg í Noregi er Kristján Eymundsson. Þeir voru ánægðir með að geta komið að því að byggja íbúðir á Húsavík, það er í sínum heimabæ.

Tilgangur húsnæðissamvinnufélaga  eins og Búfesti er  að  eiga  og  reka  hagkvæmar íbúðir af mismunandi stærðum og gerðum. Markmiðið er að bjóða upp á húsnæðiskosti fyrir alla. Búfesti hsf. á og rekur íbúðir á kostnaðarverði en þær eru um 260 talsins, þar af eru 15 á Húsavík og fljótlega verða þær 27 þegar nýju íbúðirnar bættast við. Markmið Búfesti er að bjóða upp á góðar og hagkvæmar íbúðir fyrir almenning. Með greiðslu 10% stofnverðs sem búseturéttar eignast félagsmenn aðgang að íbúðum félagsins. Einfalt og fljótlegt er að gerast félagsmaður í gegn um heimasíðu félagsins www.bufesti.is þar er einnig hægt að sjá hvaða íbúðir eru á lausu á hverjum tíma. Menn geta einnig haft samband við forsvarsmenn Búfesti með því að heyra í þeim í síma 460-5800 eða með því að senda þeim fyrirspurnir á bufesti@bufesti.is vilji menn fræðast nánar um félagið.

Nýju íbúðirnar sem er verið að reisa við Grundargarð og Ásgarðsveg á Húsavík verða auglýstar til sölu í byrjun september en þá munu fylgja nánari upplýsingar um íbúðirnar. Um er að ræða íbúðir sem eru rúmlega 100m2. Ekki skemmir fyrir að þær eru á einum fallegasta staðnum á Húsavík og þar sem stutt er í alla þjónustu. Samkvæmt upplýsingum frá Búfesti hefur töluvert verið spurt út í íbúðirnar sem er ánægjulegt enda hentar þetta form mörgum, sérstaklega þeim sem hafa ekki burði til þess að fjárfesta á frjálsum markaði.

Vel gengur að reisa 12 íbúðir á vegum Búfesti í Reitnum á Húsavík við Grundargarð og Ásgarðsveg. Íbúðirnar verða væntanlega klárar um næstu áramót.

Félagarnir Árni Grétar og Kristján Eymundar fara fyrir uppbyggingunni. Þeir vilja sjá frekari uppbyggingu í Reitnum en á sínum tíma áttu þeir góðar stundir í Húsavíkurfjalli, sem sjá má á í baksýn, enda báðir góðir skíðamenn á sínum tíma.

Reyndar segist Víðir Péturs stjórna öllu, svona í gríni eða alvöru. Hann er í það minnsta langflottastur.

Þessi ungi maður, Gunnar Valsson, sem býr og starfar í Noregi er ættaður frá Húsavík. Móðir hans er Hermína Gunnarsdóttir sem lengi bjó á Ketilsbrautinni.

Það verður ekki annað sagt að það sé afar jákvætt að Búfesti hafi tekið ákvörðun um að byggja 12 íbúðir á Húsavík í sumar. Um er að ræða glæsilegar íbúðir.

 

 

Deila á