Lagfæringar og viðræður um hæfniramma

Eins og fram kom í fjölmiðlum var slökkt á opnum kísilversins á Bakka um síðustu mánaðamót og um 80 starfsmönnum sagt upp störfum. Allt að 150 starfsmenn hafa starfað hjá fyrirtækinu þegar mest hefur verið. Um þessar mundir er unnið að lagfæringum á verksmiðjunni en ekki hefur gefist tími til að fara í þessar framkvæmdir fyrr en nú þegar framleiðslan hefur verið stöðvuð tímabundið ekki síst vegna Covid- 19 og markaðsmála.

Þá hafa stjórnendur fyrirtækisins og fulltrúar Framsýnar ákveðið að hefja viðræður síðar í þessum mánuði sem miða ekki síst að því að bæta starfsumhverfi starfsmanna enn frekar. Til skoðunar er að taka upp vinnutímastyttingu sem tryggi starfsmönnum sömu laun fyrir færri unna tíma á mánuði. Jafnframt verði bónuskerfið þróað áfram og tækiramminn sem myndar hæfniþrep. Fyrir liggur að hæfniþrepin verða tvö sem starfsmönnum stendur til boða standist þeir þær kröfur sem gerðar eru varðandi hæfniþrepin. Hæfnisþrep I gefur 2,5% launahækkun og hæfniþrep II er ætlað að gefa 5% launahækkun á grunnflokk viðkomandi starfsmanns. Við það er miðað að starfsmenn geti náð hæfniþrepunum innan 5 ára frá því að þeir hófu störf hjá fyrirtækinu.  Mikill vilji er bæði hjá forsvarsmönnum Framsýnar og PCC að gera verksmiðjuna á Bakka að góðum vinnustað og  liður í því er að huga vel að öryggi, velferð og starfskjörum starfsmanna.

Eins og fram hefur komið á heimasíðu stéttarfélaganna er PCC mikilvægasta fyrirtækið á stór Húsavíkursvæðinu þegar horft er til þess hvað fyrirtækið er að skila í sköttum til samfélagsins. Þá greiddi fyrirtækið og starfsmenn þeirra um 24 milljónir til Framsýnar á síðasta ári í félagsgjöld og kjarasamningsbundinn gjöld, það er í sjúkra- orlofs og starfsmenntasjóð félagsins. Ekkert fyrirtæki á svæðinu kemst nálægt PCC hvað þessar greiðslur eða skatta varðar til samfélagsins.

 

Deila á