Villandi fréttaflutningur  um flutning opinberra starfa

Nýlega sló Ríkissjónvarpið – sjónvarp allra landsmanna, upp frétt um flutning á opinberum störfum frá höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina. Fréttaflutningurinn var stofnuninni ekki til mikils sóma og virtist helst hafa það að markmiði að gera Framsóknarflokkinn og ráðherra hans í gegnum tíðina tortryggilega og spillta í augum almennings. Þeir hefðu helst stuðlað að því að flytja stofnanir ríkisins hreppaflutningum út á land.

Æsifréttamennskan var þvílík að farið var vitlaust með heitið á þeim ríkisstofnunum sem fréttin náði til. Þá voru ráðherrarnir sagðir koma frá allt öðrum kjördæmum en þeir raunverulega komu frá þegar þessar ákvarðanir voru teknar. Eftir framkomnar athugasemdir við óvandaðan fréttaflutning frá ýmsum aðilum fór svo að fréttastofan varð að senda frá sér leiðréttingu við fréttina, sem er hér að neðan og er hálf vandræðaleg fyrir fréttastofuna, sem vill láta taka sig alvarlega.

„Fréttin hefur verið leiðrétt. Ranglega var farið með í upphaflegri útgáfu að Valgerður Sverrisdóttir og Jón Kristjánsson hefðu flutt stofnanir í eigið kjördæmi. Einnig var ranghermt að Guðni Ágústsson hefði flutt Matvælastofnun til Selfoss. Rétt er að Landbúnaðarstofnun var breytt í Matvælastofnun.“

 Það er, að þrátt fyrir að fréttamaðurinn sem skrifaði fréttina lýsti því yfir í viðtali að hún skyldi ekkert í því að þessi „litla“ frétt fengi svona sterk viðbrögð almennings.

Það var reyndar rétt með farið hjá fréttamanni RÚV að fyrir tilstuðlan ráðherra, þ.m.t. ráðherra Framsóknarflokksins, hafa í gegnum tíðina verið flutt opinber störf út á landsbyggðina. Það er heldur ekkert annað en eðlilegt að stofnanir ríkisins séu vistaðar um landið á jafnræðisgrundvelli. Það er í anda annarra ríkisstjórna á Norðurlöndunum, sem gera í því að jafna stofnunum milli landshluta í viðkomandi löndum, enda talið óeðlilegt í alla staði að opinberar stofnanir séu nánast allar á afmörkuðu svæði s.s. í höfuðborgum viðkomandi landa. Það er löngu tímabært að stjórnmálaflokkar á Íslandi láti verkin tala í stað þess að blaðra endalaust um mikilvægi byggðastefnu, að þeir framfylgi sínum eigin stefnumálum varðandi eflingu byggðar og mannlífs í landinu. Ég bendi á að finna má í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar áherslu á skilgreiningu opinberra  starfa og að þau séu auglýst án staðsetningar sé þess kostur. Þess utan styður byggðaáætlun við þetta markmið.

Fjarskipti leika lykilhlutverk í samfélagi nútímans og þar með eflingu byggðar í landinu. Sú samskiptatækni sem við þekkjum orðið í dag, háhraðafjarskiptatengingar um allt land, svo ekki séu nefndar stórbættar samgöngur, ætti að auðvelda stjórnvöldum að dreifa opinberum störfum sem víðast um landið. Ástandið sem hefur skapast undanfarna mánuði vegna Covid – 19 hefur hrundið okkur mörg ár fram í tímann tæknilega séð og  sýnir svart á hvítu að fjarvinna er nú þegar raunverulegur möguleiki og störf án staðsetningar þurfa ekki endilega að vinnast í póstnúmerinu 101 Reykjavík.

Raunveruleg byggðastefna byggir á því að auka fjölbreytileika starfa og efla þannig byggðarlögin. Sem dæmi nefni ég að Fæðingarorlofssjóður var færður frá Reykjavík til Hvammstanga og Greiðslustofa atvinnuleysistrygginga á vegum Vinnumálastofnunar var færð til Skagastrandar. Hjá þessum stofnunum ríkisins starfar frábært starfsfólk, enda mikill mannauður á þessum vinalegu stöðum sem og fjölmörgum öðrum byggðarlögum í öllum landsfjórðungum á Íslandi. Við eigum að nýta okkur mannauðinn, þekkinguna og tæknina og vinna markvisst að því að flytja opinber störf út á land, skila þeim heim.

Stjórnmálaflokka skortir oft kjark, þrátt fyrir gefin loforð um að jafna búsetu í landinu. Kjark til að efla opinbera þjónustu í öllum kjördæmum landsins. Þó eru vissulega undantekningar frá því. Að sjálfsögðu stenst það ekki skoðun að árið 2020, geti hið opinbera ekki rekið stofnanir og þjónustu úti á landi til jafns við höfuðborgarsvæðið.

Varðandi fréttaflutning Ríkissjónvarpsins er ágætt að rifja upp flutning á opinberum störfum úr mínum kæra heimabæ, Húsavík:

  • Starfsemi Ríkisskattstjóra var lögð af á Húsavík og skrifstofu embættisins lokað.
  • Hafrannsóknarstofnun lokaði starfsstöð sinni á Húsavík og sigldi í burtu.
  • Vinnumálastofnun lagði starfsemina niður á Húsavík og skellti í lás.
  • Dregið hefur verið verulega úr starfsemi Sýslumannsembættisins á Húsavík og starfsmönnum snarfækkað frá því sem var þegar embættið stóð undir nafni.
  • Fæðingardeildinni á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga nú HSN var lokað. Þrátt fyrir að ungviðið vilji örugglega anda að sér Þingeysku lofti við fæðingu, er það ekki í boði lengur.
  • Skurðstofunni á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga var lokað og aðgerðir fluttar í burtu. Til stóð að draga enn frekar úr starfsemi Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, en með samstöðu heimamanna tókst að stöðva frekari blæðingu á þjónustu þessarar mikilvægu stofnunar í heimahéraði.

Koma upp í hugann opinber störf sem orðið hafa til á Húsavík á vegum ríkisins á sama tíma? Það eina sem ég man eftir eru veikburða tilburðir í þá átt þegar Nýsköpunarmiðstöð Íslands setti upp starfsstöð sem var svo lokað eftir fáein ár. Starfsemi sem að mati heimamanna hefði átt betur heima hjá atvinnuþróunarfélagi svæðisins, en á það var ekki hlustað af stjórnvöldum.

Þó ég nefni hér aðeins Húsavík endurspeglar upptalningin hér á undan hvernig þróunin í þessum efnum hefur verið víða á landsbyggðinni á undanförnum áratugum. En það telst víst ekki fréttaefni hjá fréttastofu Ríkissjónvarpsins að ferðast um landið og gera úttekt á öllum þeim opinberu störfum sem hafa verið ryksuguð upp hringinn í kringum landið og flutt á höfuðborgarsvæðið. Hvað þá að skoða opinber gögn sem staðfesta þennan flutning starfa til Reykjavíkur. Í þessu sambandi má benda á að Byggðastofnun hefur um árabil unnið greiningar á staðsetningu stöðugilda eftir landshlutum sem aðgengileg er á heimasíðu stofnunarinnar, https://www.byggdastofnun.is/is/utgefid-efni/grof-og-skrar. Þar kemur skýrt fram að höfuðborgarsvæðið er yfirvigtað hvað varðar fjölda ríkisstarfa  og er öll árin eini landshlutinn þar sem hlutfall ríkisstarfa er hærra en hlutfall viðkomandi landshluta af íbúafjölda landsins.

Að sjálfsögðu er fréttaflutningur af þessum toga ekki boðlegur. Þökk sé þeim ráðherrum ríkisstjórnar Íslands á hverju tíma, sem hafa haft kjark til að spyrna við fótum og sjá tækifæri í því að skila opinberum störfum aftur út um landið, störfum sem sogast hafa suður til Reykjavíkur. Vissulega er eðlilegt að menn hafi skoðanir á því hvert störfin eru flutt á hverjum tíma. Markmiðið á heldur ekki að vera að hygla ákveðnum landshlutum eða sveitarfélögum umfram önnur, það ber stjórnmálamönnum að hafa í huga vilji þeir láta taka sig alvarlega, sem ég að sjálfsögðu vona. Ákvarðanir um flutning opinberra starfa á milli landshluta mega ekki litast af pólítík, nema þá byggðapólitík  og á skynsamlegum rökum reistar.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila á