Mývetningar krefjast þess að Samkaup endurskoði þá ákvörðun sína að breyta Kjörbúðinni í Krambúð. Heimamenn segja fyrirtækið ekki sýna samfélagslega ábyrgð og hafa fært viðskipti sín annað.
Undirskriftarlisti gengur nú um Mývatnssveit þar sem þess er krafist að stjórnendur Samkaupa endurskoði ákvörðun sína um að breyta Kjörbúðinni í Reykjahlíð í Krambúð. Breytingin átti sér stað í lok maí og verðið í versluninni, sem er eina matvörubúðin í Mývatnssveit, átti að hækka um 7,7% að meðaltali.
Ragnheiður Jóna Leví Grétarsdóttir, íbúi í Mývatnssveit segir alla vilja skrifa undir bréfið, nú þegar séu rúmlega 150 búin að skrifa undir. Þá séu það ekki bara Mývetningar sem eru óánægðir með breytt fyrirkomulag heldur skrifi sumarbústaðaeigendur líka undir.
Hækkunin mun meiri
Í bréfinu kemur fram að fjölmargar vörur hafi hækkað mun meira en um 7,7%. Nýmjólkurferna kosti núna 199 kr. sem sé 17,7% hækkun, KEA vanilluskyr hafi hækkað um 16% og Myllu heimilisbrauð um tæplega 15%. Þá hafi vöruúrval minnkað og borið á vöruskorti.
Í bága við stefnu fyrirtækisins
„Í Skútustaðahreppi búa um 500 manns en í venjulegu árferði fara um 700.000 ferðamenn í gegnum Mývatnssveit og flestir koma við í versluninni,“ segir í bréfinu. Hagnaður Samkaupa hafi verið 238 milljónir árið 2019 og 452 milljónir árið þar áður. Vegna mikils fjölda ferðamanna um sveitarfélagið og einokunarstöðu sé ljóst að verslunin í Reykjahlíð hafi verið afar arðbær síðustu ár þó það sé óhjákvæmilegt að ástandið hafi líka áhrif á starfsemi fyrirtækisins. Atvinnuleysi í hreppnum sé með því mesta á landsvísu um þessar mundir og þessi breyting brjóti í raun í bága við stefnu fyrirtækisins sem segir að fyrirtækð leggi áherslu á samfélagslega ábyrgð í allri starfsemi.
Íbúar taka með þessu undir ályktun frá stéttarfélaginu Framsýn sem segir vinnubrögðin forkastanleg á þessum tíma, þegar efnahagsástandið í sveitarfélaginu sé sérstaklega slæmt.
Færa viðskipti sín annað
Ragnheiður Jóna segir íbúa hafa verslað mikið í búðinni í áranna rás og stutt vel við reksturinn, enda vilji þeir hafa verslun í heimabyggð. Nú kaupi þeir aðeins nauðsynjavörur í Krambúðinni og fari frekar til Húsavíkur eða Akureyrar til að versla. Þeir séu reiðir og einhverjir skipti ekki lengur við Samkaup og hafi fært viðskipti sín annað.
„Fólk veit að það fer á hlutastarf í haust og þá eru enn þá fleiri atvinnulausir svo við erum að vonast til þess að Samkaup geti stutt okkur aðeins meira í þessu og verið með kjörbúð hérna.“ Íbúar hyggist þá gera sitt besta í að versla þar en það sé ekki möguleiki að eyða helmingi meira en ella í mat.
(Frétt þessi byggir á frétt rúv)