Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, leit við á Skrifstofu stéttarfélaganna í gær til að ræða stöðu mála. Umræður urðu um þjóðmál, efnahagsmál og stöðu atvinnumála á svæðinu. Eins og kunnugt er þá er mikið atvinnuleysi á Íslandi um þessar mundir, ekki síst í ferðaþjónustu og þjónustugreinum tengdum ferðaþjónustu. Þá liggur fyrir að búið er að segja upp um 80 starfsmönnum hjá PCC BakkiSilicon hf. sem er alvarlegt mál þar sem það hefur ekki bara áhrif á rekstur fyrirtækisins heldur einnig önnur fyrirtæki á Húsavík sem hafa þjónustað starfsemina á Bakka. Vonandi sjá fleiri þingmenn kjördæmisins ástæðu til að líta við og ræða stöðuna í atvinnumálum og mótvægisaðgerðir gegn auknu atvinnuleysi. Við þökkum Steingrími fyrir komuna.