Jónína kjörin í stjórn Lsj. Stapa

Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs var haldinn í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri, miðvikudaginn 30. júní. Mæting á fundinn var góð en fundurinn var einnig sendur beint út á vef sjóðsins. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin ársfundarstörf.

Í ávarpi stjórnarformanns, Erlu Jónsdóttur, kom fram að ávöxtun eigna Stapa lífeyrissjóðs á árinu 2019 hefði verið með besta móti enda skiluðu allir eignaflokkar sjóðsins jákvæðri ávöxtun á árinu. Niðurstaðan var rúmlega 10% raunávöxtun sem er besta ávöxtun í sögu sjóðsins í núverandi mynd. Langtímaávöxtunarmarkmið sjóðsins er 3,5% en meðalraunávöxtun undanfarinna 10 ára nemur 4,1%.

Hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris heldur áfram örum vexti, bæði vegna hækkandi iðgjalda og góðrar ávöxtunar. Í árslok 2019 nam hún 256.133 milljónum króna og hækkaði um 35.427 milljónir króna á árinu. Hrein eign tryggingadeildar nam 249.521 milljónum króna og hrein eign séreignardeilda 6.612 milljónum. Heildarlífeyrisgreiðslur tryggingadeildar sjóðsins á árinu námu 6.408 milljónum króna og hækkuðu um 12,9% frá fyrra ári. Stærstan hluta lífeyrisgreiðslna má rekja til eftirlauna, eða sem nemur 71%, örorkulífeyrir nam 24% af lífeyrisgreiðslum sjóðsins og barna- og makalífeyrir 5%. Lífeyrisþegar í árslok voru 10.261 og fjölgaði um 641 frá fyrra ári.

Stjórnarformaður fór einnig yfir áherslur Stapa í eignastýringu og vinnu varðandi framkvæmd stefnu sjóðsins sem félagslega ábyrgur fjárfestir. Í ársskýrslu sjóðsins má nú nálgast upplýsingar um hlutfall útgefenda og eignastýrenda í eignasafni sjóðsins sem fylgja viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (United Nations Principles for Responsible Investment). Stapi hefur frá árinu 2018 birt á heimasíðu sinni upplýsingar um beitingu atkvæðaréttar sjóðsins á hluthafafundum skráðra innlendra hluthafafélaga. Á næstu árum mun upplýsingagjöf Stapa í þessu málaflokki vaxa sem og eftirfylgni og aðgerðir sjóðsins til að tryggja að markmiðum stefnu hans sem fjárfestis nái fram að ganga.

Stjórnarformaður ítrekaði mikilvægi þess að bakland lífeyrissjóðanna komi með virkum hætti að endurskoðun lífeyriskerfisins enda hafi stjórnvöld lýst því yfir að þau hyggist endurskoða kerfið. Landssamtök lífeyrissjóða hefur lagt áherslu á að koma að þessari endurskoðun. Að lokum gerði stjórnaformaður grein fyrir áhrifum Covid-19 á rekstur og eignir sjóðsins.  Ávarp stjórnarformanns er að finna í heild sinni hér að neðan.

Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa, fór því næst yfir ársreikning sjóðsins og áritanir og gerði grein fyrir tryggingafræðilegri stöðu. Var ársreikningur sjóðsins samþykktur samhljóða að yfirferð lokinni. Tryggingafræðileg staða sjóðsins styrktist á árinu, er neikvæð um 0,4%, en var neikvæð um 1,8% í lok árs 2018.

Þá fór Brynjar Þór Hreinsson, fjárfestingarstjóri, yfir fjárfestingarstefnu sjóðsins. Hann fór einnig yfir hluthafastefnu Stapa og var hún samþykkt samhljóða.

Á fundinum voru lagðar fram tillögur að breytingum á töflum í samþykktum sjóðsins. Jóna Finndís Jónsdóttir, forstöðumaður réttndasviðs, gerði grein fyrir þeim. breytingum og voru þær allar samþykktar.

Gert var grein fyrir starfskjarastefnu sjóðsins sem er óbreytt frá fyrra ári og var hún samþykkt samhljóða. Þá var einnig samþykkt tillaga að KPMG sem löggiltum endurskoðanda sjóðsins og tillaga að breytingu stjórnarlauna frá fyrra ári, í samræmi við hækkun á launavísitölu.

Stjórnarkjöri var lýst en stjórn sjóðsins var kosin á fulltrúaráðsfundi sjóðsins þann 2. júní sl. Stjórn Stapa lífeyrissjóðs skipa í dag:

Frá launamönnum:
Tryggvi Jóhannsson, varaformaður, Oddný María Gunnarsdóttir, Sverrir Mar Albertsson og Jónína Hermannsdóttir sem jafnframt er starfsmaður stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.

Varamenn: Heimir Kristinsson og Sigríður Dóra Sverrisdóttir.

Frá launagreiðendum:
Erla Jónsdóttir (formaður), Kristín Halldórsdóttir, Unnar Már Pétursson og Valdimar Halldórsson.

Varamenn: Guðrún Ingólfsdóttir og Páll Snorrason.

Þá var í samþykkt samhljóða nefnd um laun stjórnar. Í nefndinni sitja stjórnarformaður Stapa, Jens Garðar Helgason, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir og Guðmundur Finnbogason.

Gögn frá ársfundinum:

Deila á