Atvinnuleysi mikið í Þingeyjarsýslu

Á vef Vinnumálastofnunnar er hægt að kynna sér nýjustu atvinnuleysistölur landsins. Eftir Covid-19 faraldurinn er ljóst að atvinnuástandið hefur ekki verið jafn slæmt lengi. Auðvitað á þetta við í Þingeyjarsýslum eins og öðrum svæðum landsins. Þannig má sjá að atvinnuleysi í Norðurþingi var í apríl 21,5%, 25,9% í Tjörneshreppi, 20,2% í Þingeyjarsveit og 42,2% í Skútustaðahreppi. Heilt yfir er ekki mikill munur á atvinnuleysi eftir kynjum. Þetta eru vitaskuld allt öðruvísi tölur en venjan er á þessu svæði. Augljóslega er þetta ástand tilkomið vegna Covid-19 ástandsins.

Það er þó ekki bara slæmar fréttir að finna í þessari samantekt Vinnumálastofnunnar. Hægt er að sjá að á Norðurlandi eystra öllu hefur atvinnuleysi minnkað á milli apríl og maí um rúmlega 11%. Tölur niður á einstaka sveitarfélög eru ekki enn fáanlegar fyrir maí en reikna má með því að atvinnuleysi hafi minnkað í Þingeyjarsýslu í maí miðað við apríl miðað við þetta. Tekið skal fram að hér er átt við almennt atvinnuleysi en ekki þá einstaklinga sem fóru í skert starfshlutfall samkvæmt sérstökum lögum sem sett voru í kjölfar Covid-19.

Deila á