Gagnrýna Samkaup fyrir að hækka vöruverð í verslun fyrirtækisins í Mývatnssveit  

Á fundi stjórnar Framsýnar stéttarfélags 15. júní 2020 urðu umræður um verslun og þjónustu Samkaupa í Mývatnssveit. Hörð gagnrýni kom fram á fundinum með ákvörðun verslunarkeðjunnar um að breyta nafni á verslun fyrirtækisins í Mývatnssveit og hækka þar með vöruverðið í búðinni. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er mikil reiði meðal íbúa á svæðinu með þessa ákvörðun Samkaupa, sem þarf ekki að koma neinum á óvart. Stjórn Framsýnar samþykkti að senda frá sér svohljóðandi ályktun um málið:

 Ályktun
Ákvörðun Samkaupa um breytingar á verslunarrekstri í Mývatnssveit

„Framsýn stéttarfélag gagnrýnir harðlega þá ákvörðun Samkaupa að stórhækka vöruverð í verslun Samkaupa í Mývatnssveit. Fyrirtækið hefur þegar ákveðið að breyta nafni verslunarinnar úr Kjörbúð í Krambúð. Við nafnabreytinguna kemur vöruverðið í einhverjum tilfellum til með að hækka um tugi prósenta. Verslunarkeðjan hefur gefið út að við breytinguna muni vöruverðið hækka að meðaltali um 7,7%.

Þessi vinnubrögð eru forkastanleg í alla staði. Hafi það farið fram hjá forsvarsmönnum Samkaupa hefur þjóðfélagið verið lamað undanfarna mánuði vegna Covid 19 veirunnar. Því miður eru horfur á að efnahagsástandið muni ekki lagast í bráð.

 Ástandið hefur ekki síst komið afar illa við íbúa Skútustaðahrepps enda byggir atvinnulífið í sveitarfélaginu að stórum hluta á ferðaþjónustu. Hlutfallslegt atvinnuleysi meðal vinnandi fólks í Skútustaðahreppi hefur verið með því mesta sem gerist meðal íbúa sveitarfélaga á Íslandi.

 Ákvörðun Samkaupa er ógn við Lífskjarasamninginn sem byggir á samstarfi Samtaka atvinnulífsins, sveitarfélaga, stjórnvalda, fjármálastofnanna og verkalýðshreyfingarinnar um stöðugleika í þjóðfélaginu. Stöðugleiki byggir ekki síst á stöðugu verðlagi og að opinberir aðilar haldi gjaldskrárhækkunum í lágmarki.

Er von að spurt sé, telur Samkaup sé ekki bera neinar samfélagslegar skyldur gagnvart Lífskjarasamningnum, íbúum Skútustaðahrepps og þeim fjölmörgu ferðamönnum sem heimsækja svæðið á hverjum tíma?

Krafa Framsýnar er að stjórnendur Samkaupa endurskoði ákvörðun sína þegar í stað og bjóði Mývetningum og gestum þeirra upp á sambærilegt vöruverð og best gerist í verslunum fyrirtækisins.“

Deila á