Þakkir til Framsýnar frá ÖBÍ og Landssambandi eldri borgara

Framsýn hefur borist þakkir frá Öryrkjabandalagi Íslands  fyrir hvatningarbréf sem fór frá félaginu til Alþýðusambands Íslands varðandi mikilvægi þess að hagsmunasamtök sem hafa það að markmiði að vinna að málefnum og velferð fólks á vinnumarkaði og þeirra sem hætt hafa störfum á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku myndi breiðfylkingu með það að markmiði að standa vörð um hagsmuni og réttindi þessara hópa. Í pósti formanns ÖBÍ til Framsýnar kemur m.a. fram: „Það er að stór hagsmunasamtök myndi bandalag, breiðfylkingu þar sem unnið er að velferð fólks með fókus á lágtekjuhópa og þá sem eru lægstir og verst settir sem eru öryrkjar – fatlað og langveikt fólk. Takk fyrir ykkar hvatningu hún er mikils virði og ég er viss um að þetta er upphafið að einhverju stærra.“ Formaður ÖBÍ er Þuríður Harpa Sigurðardóttir.

Sömuleiðis hefur Framsýn borist þakkir frá formanni Landssambands eldri borgara. Þar er Framsýn þakkað fyrir að ljá máls á þessu mikilvæga máli.

Það voru mörg mál á dagskrá fundar stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar í gær. Þar á meðal málefni öryrkja og aldraðra. Að sjálfsögðu virtu menn tveggja metra regluna með því sitja ekki þétt saman eins og hefð er fyrir á fundum á vegum félagsins enda mikil og góð  samstaða meðal þeirra fjölmörgu sem starfa fyrir félagið með beinum eða óbeinum hætti.

Deila á