Félagar, til hamingju með daginn!

Ágætu félagar

Til hamingju með daginn, alþjóðlegan baráttudag verkafólks!

Þegar ég flutti eina af mínum fyrstu ræðum á hátíðarhöldunum 1. maí á Húsavík, þá ný orðin formaður í verkalýðsfélagi, byrjaði ég ræðuna með þessum orðum:

Í dag, á hátíðar- og baráttudegi verkafólks 1. maí, safnast fólk saman víða um heim í skrúðgöngum og/eða á samkomum til að minna á kröfur sínar um jafnrétti, velferð og réttlát kjör til handa öllum. Þetta er dagur hins vinnandi manns.

Nú ber svo við að það verða engar skrúðgöngur eða baráttusamkomur víða um heim sem rekja má til ástandsins í heiminum er tengist Covid- 19 veirunni. Veira sem á sér engin landamæri og herjar á alla burt séð frá kyni, litarhætti eða stöðu þeirra í samfélaginu.

Í fyrsta skipti síðan 1923 getur íslenskt launafólk ekki safnast saman 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar vegna takmarkana sem heilbrigðisyfirvöld á Íslandi fyrirskipuðu og tengjast Covid- 19 veirunni. Það ár fóru menn í fyrstu kröfugönguna 1. maí undir lúðrablæstri og rauðum fánum. Dagurinn varð síðan lögskipaður frídagur á Íslandi 1972.

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að rauði liturinn á fána verkalýðshreyfingarinnar táknar uppreisn gegn ranglæti. Hann þýðir að nú sé nóg komið, auk þess sem hann táknar dagrenninguna. Íslenska verkalýðshreyfingin hefur í gegnum tíðina tekið á mörgum mikilvægum málum undir rauðu flaggi, það er sameinað verkafólk undir rauðu flaggi til góðra sigra.

Því miður ber svo við um þessar mundir að verkafólk getur ekki sameinast undir rauðu flaggi til að minna á sínar sjálfsögðu og réttlátu kröfur um betri heim til handa öllum, ekki bara fáum útvöldum. Þess í stað verða menn að beita sér með skrifum og með rafrænum útsendingum þar sem öllum ýtrustu reglum er fylgt eftir samkvæmt tilmælum heilbrigðisyfirvalda til  að verjast Covid- 19 veirunni.

Heildarsamtök launafólks á Íslandi munu standa fyrir sameiginlegri dagskrá í kvöld, 1. maí. Hátíðarhöldin verða í Hörpu og sjónvarpað út til landsmanna í gegnum Ríkissjónvarpið.  Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum eiga aðild að samkomunni í gegnum sín heildarsamtök, ASÍ og BSRB.

Vissulega eru þetta mikil viðbrigði, ekki síst fyrir stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum sem  alla tíð hafa lagt mikið upp úr þessum degi. Eða eins og fyrrverandi formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur, Helgi Bjarnason, sagði á sínum tíma. „Þetta er dagurinn okkar sem okkur ber að viðhalda og virða til framtíðar, ekki síst í minningu forfeðrana sem mörkuðu sporin okkur til heilla.“

Á samkomum stéttarfélaganna hefur boðskapi dagsins verið komið vel á framfæri við hátíðargesti í Íþróttahöllinni á Húsavík í gegnum ræðuhöld og þá hefur jafnframt verið lögð áhersla á að bjóða upp á vandaða tónlistar- og skemmtidagskrá í anda hátíðarhaldanna.

Forystufólk innan stéttarfélaganna hefur lagt á sig mikla sjálfboðavinnu til að láta hlutina ganga upp með starfsmönnum félaganna. Það að taka á móti 600 til 900 manns krefst vinnuframlags frá mörgum höndum. Fyrir þetta góða starf ber að þakka í gegnum tíðina.

Kjörorð dagsins er „Byggjum réttlátt þjóðfélag“. Stéttarfélögin í þingeyjarsýslum munu standa vaktina áfram sem hingað til með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.

Eins og fram kemur í þessu stutta ávarpi til félagsmanna verður ekki hefðbundin dagskrá á vegum stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum í ár, það er því við hæfi að menn spili Framsýnarlagið í tilefni dagsins http://www.framsyn.is/framsynarlagid/ og skoði síðan svipmyndir hér á síðunni frá hátíðarhöldum stéttarfélaganna frá síðustu árum.

Góðar stundir og gleðilegt sumar

 Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags

Deila á