Ríkistjórnin samþykkir að koma til móts við fyrirtæki og starfsmenn þeirra

Í vikunni  samþykkti ríkisstjórn Íslands og kynnti þrjár tillögur um stuðning við launafólk og fyrirtæki. Markmið þeirra er að draga úr þeim skaða sem umfangsmiklar uppsagnir og fjöldagjaldþrot valda. Standa á vörð um réttindi launafólks á sama tíma og stuðlað verður að kröftugri viðspyrnu efnahagslífsins.

1. Framhald hlutabótaleiðarinnar.

Hlutastarfaleiðin verður framlengd með óbreyttu 25% lágmarkshlutfalli út júní en það hækki í 50% í júlí. Leiðin verður í boði til 31. ágúst. Sækja þarf um framlengingu leiðarinnar og sett verða skilyrði til að koma í veg fyrir misnotkun.

2. Greiðsla launa á uppsagnarfresti.

Fyrirtækjum verður gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Stuðningurinn verður að hámarki 633 þús. kr. á mánuði í allt að þrjá mánuði auk orlofs og einskorðast við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir að lágmarki 75% tekjufalli og sjá fram á áframhaldandi tekjufall að minnsta kosti út þetta ár. Aðstoðin miðast við allt að 85% af launum í uppsögn.

3. Fjárhagsleg endurskipulagning.

Settar verða einfaldar reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, tímabundið til að byrja með. Byggt verður á núgildandi grunnreglum en breytingar miða að því að fyrirtæki geti komist í skjól á einfaldan hátt á meðan verið er að meta stöðu þeirra og framtíðarhorfur. Breytingar lúta m.a. að skilyrðum fjárhagslegrar endurskipulagningar, beiðni og umfjöllun um hana, tímafrestum, heimildum til ráðstafana og riftunar- og vanefndaheimildum viðsemjenda. Gert er ráð fyrir að krafa verði gerð um að fyrirtæki muni þurfa að tilnefnda tilsjónarmann sem aðstoðar fyrirtækið á endurskipulagningar tímabilinu.

Deila á