Kalla eftir víðtæku samstarfi hagsmunaaðila um bætt lífskjör fólks

Á stjórnarfundi Framsýnar í gær, mánudaginn 27. apríl, urðu töluverðar umræður almennt um lífskjör fólks á Íslandi og stöðu þess í þjóðfélaginu, það er á breiðum grundvelli.

Fólk á vinnumarkaði, atvinnuleitendur, fólk á eftirlaunum, fólk með skerta starfsorku og öryrkjar eiga margt sameiginlegt, flestir þeirra hafa verið á vinnumarkaði um  lengri eða skemmri tíma og þar með þátttakendur í starfi stéttarfélaga. Um að ræða mjög fjölmennan hóp sem mikið afl býr í. Að mati Framsýnar er brýnt að virkja þessi öfl saman til góðra verka með það að markmiði að bæta hag allra, ekki síst þeirra sem hvað verst eru settir í íslensku samfélagi.

Stéttarfélög og hagsmunasamtök þeirra, eins og Alþýðusamband Íslands gegna mikilvægu hlutverki hvað þetta varðar, en það gera einnig samtök eins og Félagasamtök eldri borgara og Öryrkjabandalagið. Að mati Framsýnar ættu einnig að koma að þessu sameiginlega borði samtök eins og Neytendasamtökin, Leigjendasamtökin og Hagsmunasamtök heimilanna þar sem eru ekki síður mikilvæg í baráttunni fyrir auknum jöfnuði í þjóðfélaginu. Án efa væri fengur í því að fá fleiri félagasamtök að þessu borði velferðar og réttlætis.

Stjórn Framsýnar samþykkti að hvetja Alþýðusamband Íslands til að hafa frumkvæði að því að mynda formlegt bandalag með öðrum hagsmunasamtökum launafólks og öðrum þeim hagsmunaaðilum sem vinna að sama markmiði. Tilgangurinn verði að mynda breiðfylkingu með þeim félagasamtökum sem hafa það að markmiði að vinna að velferð sinna umbjóðenda og vera málsvari þeirra í sameiginlegum málum er tengist meðal annars samskiptum við stjórnvöld, sveitarfélög og fjármálakerfið í landinu. Eins og oft áður eiga orðin, „Sterkari saman“, vel við um þessar mundir.

 

Deila á