Fjöldi fólks á hlutabótum í Þingeyjarsýslum

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun eru hátt í 400 manns um þessar mundir á hlutabótum á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Hér er átt við þá starfsmenn sem tekið hafa á sig skert starfshlutfall á móti atvinnuleysisbótum samkvæmt heimild stjórnvalda þess efnis til að mæta áhrifum Covid- 19 með þessari tímabundnu leið. Rauntölur atvinnuleysis í lok mars í Þingeyjarsýslum jafngilda því að um 220 einstaklingar séu án atvinnu. Það er þegar búið er að reikna hlutastörfin upp í full stöðugildi. Mun fleiri karlar en konur eru á atvinnuleysisbótum. Þá virðist sem ástandið sé að koma hvað verst út fyrir aldurshópinn 18-29 ára, sá hópur hefur tekið á sig mestar skerðingarnar svo vitnað sé aftur í skýrslu Vinnumálastofnunar um þróun mála síðustu mánaða og áætlun fyrir komandi vikur. Reiknað er með að atvinnuleysið verði í sögulegu hámarki í apríl en fari síðan hægt niður á við. Á félagssvæði stéttarfélaganna er ástandið hvað verst í Skútustaðahreppi en spáð er um 30% atvinnuleysi í sveitarfélaginu í apríl. Nánar má fræðast um stöðuna á meðfylgjandi myndum en fyrir liggur að flestir þeirra sem eru á hlutabótum eru starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækja sem staðfestir að atvinnugreinin er að koma lang verst út úr ástandinu á vinnumarkaðinum, það er á tímum Covid- 19.

Deila á