30 þúsund manns hafa sótt um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls

Yfir 30 þúsund manns hafa sótt um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls. Þetta kemur fram í tölum frá Vinnumálastofnun. Flestar eru umsóknirnar úr ferðaþjónustu en yfir 12 þúsund starfsmenn í greininni hafa sótt um bætur. Úr verslun og vöruflutningum hafa yfir 6 þúsund umsóknir hafa borist.

Dreifing umsækjenda milli landshluta er að mestu í samræmi við dreifingu starfandi fólks í landinu. Fjöldi umsækjenda er þó hlutfallslega hærri á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Þannig hafa 11% umsókna borist frá íbúum Suðurnesja, þar sem 8% starfandi landsmanna bjuggu á síðasta ári og 67% umsókna af höfuðborgarsvæðinu, þar sem 64% starfandi landsmanna bjuggu.

  Fjöldi umsókna Hlutfall af umsóknum Starfandi 2019 Hlutfall af starfandi 2019
Höfuðborgarsvæðið 20.161 67% 126.666 64%
Suðurnes 3.338 11% 14.944 8%
Vesturland 873 3% 9.195 5%
Vestfirðir 312 1% 3.996 2%
Norðurland vestra 254 1% 4.074 2%
Norðurland eystra 2.158 7% 16.727 8%
Austurland 888 3% 7.743 4%
Suðurland 2.113 7% 15.684 8%
Samtals 30.097   199.029  

 

Kynjaskipting umsækjenda er nokkuð jöfn. 55% umsækjenda eru karlmenn en 45% konur. Til samanburðar voru karlar 53% starfandi landsmanna í fyrra en konur 47%, samkvæmt tölum frá Hagstofu.

Ríflega þrír af hverjum fjórum umsækjendum eru íslenskir ríkisborgarar, en um 14% eru Pólverjar og 10% borgarar annarra ríkja. Í fyrra voru um 80% starfandi fólks hérlendis Íslendingar en 20% útlendingar. Endurspegla umsóknir um hlutabætur því betur samsetningu vinnumarkaðarins en umsóknir um atvinnuleysisbætur síðasta árið, þar sem hlutfall Íslendinga meðal umsækjenda hefur verið 63%.

Sé litið til aldursskiptingar, eru umsóknir hlutfallslega flestar í aldurshópnum 30-39 ára. Alls eru 26% umsækjenda á þeim aldri, samanborið við 21,6% af starfandi fólki. Lægst er hlutfallið meðal fólks á aldrinum 60-69 ára, en 9% umsækjenda eru á þeim aldri samanborið við 11,7% af starfandi fólki.

  Fjöldi umsókna Hlutfall af umsóknum Hlutfall af starfandi 2019** Meðalhlutfall atvinnulausra síðustu 12 mán.
18-29 ára* 8.234 27% 30,6% 29,1%
30-39 ára 7.944 26% 31,1% 21,6%
40-49 ára 6.387 21% 17,1% 19,5%
50-59 ára 4.963 16% 13,2% 18%
60-69 ára 2.569 9% 8% 11,7%

*16-29 ára í fullu atvinnuleysi og 15-29 ára í starfandi   **Samkvæmt skráargögnum

Deila á