Standa vaktina varðandi útgreiðslur úr sjúkrasjóði

Stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar kom saman á dögunum til að fara yfir stöðuna í þjóðfélaginu og viðbrögð við Covid 19. Því er spáð að aukin ásókn verði í sjúkrasjóði stéttarfélaganna á næstu mánuðum vegna veikinda félagsmanna. Fyrir liggur að mörg stéttarfélög hafa verulegar áhyggjur af stöðunni þar sem búast má við aukinni ásókn í sjóðina um leið og tekjur stéttarfélaganna koma til með að fara verulega niður á við og þar með tekjur sjúkrasjóðanna. Ljóst er að stéttarfélögin standa misvel. Dæmi eru um að stéttarfélög séu byrjuð að skoða hvernig þau geti brugðist við stöðunni versni hún enn frekar. Í reglugerð Sjúkrasjóðs Framsýnar er tiltekið að ef farsóttir geisi geti sjóðstjórn leyst sjóðinn undan greiðsluskyldu um stundarsakir. Sjóðstjórn getur einnig ákveðið að lækka dagpeninga um stundarsakir, ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.

Það gleðilega er að staða sjúkrasjóðs Framsýnar er sterk.  PwC var fengið til að taka út sjúkrasjóð félagsins á síðasta ári. Úttektin staðfesti að staða sjóðsins væri góð og því ættu félagsmenn ekki að þurfa að hafa áhyggjur komi til þess að þeir verði veikir og klári sinn veikindarétt hjá viðkomandi fyrirtækjum og þurfi í framhaldinu að leita til Framsýnar eftir sjúkradagpeningum.

Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar taldi stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar ekki þörf á því að bregðast við aðstæðum að svo stöddu. Hins vegar væri full ástæða til að fylgjast vel með og vera viðbúin að bregðast við komi upp þannig aðstæður. Í dag kæmi sér vel fyrir félagsmenn Framsýnar að félagið hefði í gegnum tíðina verið vel rekið og lagt fjármagn til hliðar til að mæta óvæntum aðstæðum s.br. Covid – 19.

Á meðfylgjandi mynd má sjá stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar að störfum.

 

Deila á