Verklag til fyrirmyndar á Þverá

Undanfarnar vikur hefur staðið yfir rúningur á flestum sauðfjárbúum landsins. Flestir bændur rýja fé sitt sem fyrst eftir að það kemur á hús að hausti, en síðan er rúið aftur seinnipart vetrar. Er það gert til að gæði haustullarinnar haldist sem best og er seinni rúningurinn gjarnan nefndur snoðrúningur. Snoðið er oftast tekið af í febrúar – mars.

Algengasta  rúningsaðferðin sem tíðkast hér á landi í dag, er kennd við Nýja-Sjáland og hefur mest verið notuð hér frá því á áttunda áratugnum. Var það mikil breyting frá þeim aðferðum sem tíðkast höfðu, en fram að því hafði sauðfé verið rúið með handklippum og/eða hnífum, einu sinni á ári. Með nýsjálensku aðferðinni eru ærnar lagðar á malirnar og rúið frá bringu og aftur úr. Starfið er slítandi og reynir mikið á bakið. Því hafa margir rúningsmenn fjárfest í  í rólu, sem þeir hanga í meðan þeir vinna verkið og létta þannig á stoðkerfinu. Góðir rúningsmenn eru eldsnöggir að svipta kindinni úr reyfinu og geta náð miklum afköstum yfir daginn. Eru þeir eru gulls ígildi fyrir bændur og líklega eins eftirsóttir í dag og góðir sláttumenn voru fyrir um 100 árum.

Það vakti athygli fréttaritara heimasíðunnar, er hann leit við í fjárhúsunum á Þverá í Dalsmynni á dögunum, að vinnulag við rúninginn var með nokkru öðru móti en almennt tíðkast. Þverárbændur hafa löngum  þótt verkhagir og úrræðagóðir, sem kemur sér afar vel þegar fáar hendur eru til að vinna verkin. „Sömu vinnustellingar henta ekki öllum“ segir Arnór Erlingsson bóndi, þegar hann útskýrir fyrir fréttarita, það verklag sem hann hefur tamið sér við snoðrúninginn. Arnór telur það ekki algengt að menn noti palla við rúninginn, en þó sé það til. Hann segir fullorðna féð oftast rólegt  á pallinum, „það eru helst gemsarnir sem eitthvað sprikla til að byrja með,“ segir hann, „en þeir venjast þessu.“  Byrjað er á að koma viðfangsefninu fyrir á lyftupallinum. Síðan er bandi smeygt aftur fyrir hornin, komið fyrir einskonar múl og taumnum tyllt við stoð. Til að tryggja réttar vinnustellingar segist Arnór byrja á því að stilla pallinn í vinnuhæð, en síðan geti hann bara hafið verkið. Hann segist yfirleitt ekki nota þetta verklag við haustrúninginn, en þyki þessi aðferð þægilegri við snoðrúninginn. „Ærnar eru  þá líka orðnar þyngri á sér og erfiðari í meðförum.“ Ekki var annað sjá en að Botnu líkaði þetta fyrirkomulag prýðilega, enda hefur hún sennilega nokkrum sinnum fengið að koma á pallinn áður. Kannski veit hún líka sem er, að það styttist í burð og eiganda hennar ber að sýna henni skilning og tillitsemi. Reyna að lágmarka streitu sem kostur er á meðan á rúningi stendur. (ÓH)

Unnið við sumarrúning á Lokastaðarétt í Dalsmynni um miðja síðustu öld. Það er Benedikt Karlsson bóndi á Ytra – Hóli sem mundar klippurnar, en Helgi Jóhannesson vinnumaður heldur í ána. Helgi þessi er ættaður frá Bakka á Tjörnesi og er núverandi forstóri Norðurorku.

Fyrr á árum var þetta algengasta aðferðin.

Síðan kom rólan sem flestir nota í dag til að létta þeim rúninginn.

Útbúnaðurinn á Þverá er til fyrirmyndar og auðveldar bóndanum að rýja kindurnar á bænum.

 

Deila á