Megn andstaða með sameiningu atvinnuþróunarfélaga

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa lengi komið að starfsemi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga ásamt sveitarfélögum og atvinnurekendum í héraðinu. Fyrrgreindir aðilar voru hluthafar í Atvinnuþróunarfélaginu áður en því var breytt í sjálfseignarstofnun ses. Á hverjum tíma hefur stjórnin verið skipuð fulltrúum frá sveitarfélögum og atvinnulífinu, það er stéttarfélögum og atvinnurekendum. Frá fyrstu tíð hefur samstarf þessara aðila verið til mikillar fyrirmyndar og starfsemi Atvinnuþróunarfélagsins verið öflug, svo eftir hefur verið tekið. Markmið félagsins hefur verið að efla byggð og atvinnu í Þingeyjarsýslum í samstarfi við heimamenn.

Nú ber svo við að ákveðið hefur verið að sameina Eyþing, Atvinnuþróunarfélag Eyjarfjarðar og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga í ný landshlutasamtök sem ganga undir vinnuheitinu Norðurbrú. Um þetta urðu sveitarstjórnarmenn á félagssvæði Eyþings sammála, fyrir utan Tjörneshrepp sem stóð í lappirnar og lagðist gegn þessari sameiningu. Sama á við um Framsýn stéttarfélag sem lagðist eindregið gegn sameiningunni. Að mati Framsýnar er það ekki heillaspor fyrir Þingeyinga að færa atvinnuþróun og uppbyggingarstarf atvinnumála í nýtt félag á svæðinu til Akureyrar miðað við samsetningu stjórnar. Samkvæmt nýja skipulaginu verða 7 fulltrúar kjörnir í stjórn fyrir nýtt sameinað félag. Fjórir stjórnarmenn koma frá Akureyri/Eyjafirði og þrír úr Þingeyjarsýslum. Þingeyingar verða því í minnihluta auk þess sem Akureyringar kröfðust þess að fá stjórnarformanninn vegna stærðar sveitarfélagsins. Eðlilegast hefði verið að stjórnin skipti sjálf með sér verkum enda um samstarfsvetfang að ræða sem á ekki að byggjast á því hver sé stærstur og mestur.

Til samanburðar má geta þess að Norðurþing beitti aldrei þessu valdi í stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga þrátt fyrir að greiða mest til félagsins, heldur var horft til þeirra sem völdust í stjórn á hverjum tíma og stöðu atvinnu- og byggðamála í héraðinu. Í ljósi þess þarf engum að koma á óvart að í flestum tilvikum féll stjórnarformennskan í hlut sveitarstjórnarmanna austan Húsavíkur enda hefur það svæði til fjölda ára fallið undir brothættar byggðir í skilningi Byggðastofnunnar. Að þeim sökum hefur töluverður tími farið í það á vegum Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga að sinna austursvæðinu umfram önnur svæði í Þingeyjarsýslum, ekki síst í samstarfi með Byggðastofnun.

Til málamynda er talað um að lögheimili nýrrar stofnunar verði á Húsavík. Athyglisvert er að ekki er talað um að höfuðstöðvarnar verði á Húsavík í samþykktunum heldur lögheimilið eða bréfalúgan eins og einn ágætur maður orðaði það. Nú mun reyna á að sveitarstjórnarmenn í Þingeyjarsýslum fylgi því eftir að Höfuðstöðvarnar verði á Húsavík og þar verði utanumhald um reksturinn, starfsmannahald og framkvæmdastjórinn staðsettur. Það er, meini menn eitthvað með því að svokallað lögheimili verði á Húsavík sem er miðsvæðis á starfssvæði Norðurbrúar. Til viðbótar þarf að tryggja starfseminni rekstrargrundvöll þar sem talað er um að efla starfsemina frekar með sameinuðu félagi með fjórum starfsstöðvum á starfssvæði Eyþings/Norðurbrúar.

Eins og fram kemur í þessari samantekt lagðist Framsýn alfarið gegn sameininguni enda hugmyndin ekki á vetur setjandi að mati félagsins. Framsýn stóð fyrir fundi í stjórn og trúnaðarráði félagsins sem skipað er félagsmönnum úr flestum sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum. Þar kom fram mjög hörð gagnrýni á sameininguna og samþykkti fundurinn að senda frá sér meðfylgjandi yfirlýsingu sem skýrir afstöðu félagsins til þessarar sameiningar. Formaður fylgdi henni eftir á fulltrúaráðsfundi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga sem haldinn var í Skúlagarði 19. nóvember þar sem sameining þessara þriggja stofnanna var tekin fyrir og samþykkt formlega með meirihluta greiddra atkvæða.

Yfirlýsing
-Vegna fyrirhugaðra breytinga á starfsemi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga-

 „Framsýn stéttarfélag leggst alfarið gegn sameiningu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Atvinnuþróunarfélags Eyfirðinga og Eyþings.

 Fram að þessu hefur verið breið samstaða meðal sveitarfélaga, samtaka atvinnurekanda og stéttarfélaga í Þingeyjarsýslum um að veita samræmda og þverfaglega ráðgjafaþjónustu tengda atvinnulífi, samfélags- og byggðaþróun í gegnum Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga.

 Atvinnuþróunarfélagið hefur þurft að takast á við mörg krefjandi verkefni ekki síst vegna þess að hluti af starfssvæðinu er skilgreint sem brothættar byggðir.

 Að mati Framsýnar hefur Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga skilað góðu starfi í þágu samfélagsins. Stjórn félagsins hefur verið skipuð fulltrúum frá sveitarfélögum af öllu svæðinu auk fulltrúum frá atvinnulífinu í Þingeyjarsýslum.

Miðað við fyrirliggjandi tillögur verða verulegar breytingar á starfsemi atvinnuþróunar á starfssvæði Eyþings og aðgengi sveitarfélaga og atvinnulífsins í Þingeyjarsýslum að stjórnun félagsins verður ekki með sama hætti og verið hefur.

 Framsýn stéttarfélag getur því ekki sætt sig við boðaðar breytingar og leggst því alfarið gegn þeim.“

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila á