Á stjórnar- og trúnaðarráðsfundi Framsýnar stéttarfélags mánudaginn 18. nóvember 2019 var samþykkt að skrifa Norðurþingi bréf og koma eftirfarandi ábendingum á framfæri við sveitarfélagið:
Í aðalskipulagi Norðurþings er gert ráð fyrir skipulögðu svæði undir iðnað og aðra atvinnustarfsemi á Bakka við Húsavík. Fyrirtækið PCC BakkiSilicon hf. rekur þar í dag öfluga starfsemi með um 150 starfsmönnum. Það er von Framsýnar að heimamönnum takist að laða að frekari atvinnustarfsemi inn á svæðið í sátt og samlyndi við sveitarfélagið og íbúa í Norðurþingi.
Það sem veldur félaginu hins vegar verulegum áhyggjum er að vegna húsnæðiseklu á Húsavík býr þó nokkur hluti starfsmanna í verbúðum/starfsmannabústöðum á Bakka. Oft er um að ræða fólk sem hefur ekki aðgang að bifreiðum. Starfsmenn PCC sem búa við þessar aðstæður þurfa því oft að fara fótgangandi til og frá Bakka, eftir illa upplýstum vegi, til að sækja verslun og þjónustu til Húsavíkur sem skapar töluverða slysahættu.
Framsýn hefur talað fyrir því að PCC komi sér upp ferðum/strætó milli Húsavíkur og Bakka til að tryggja öryggi starfsmanna sem búa í húsnæði á þeirra vegum á Bakka. Því miður hefur fyrirtækið ekki talið sig geta komið til móts við þær kröfur.
Framsýn vill með bréfi þessu vekja athygli Norðurþings á málinu og fara þess á leit við sveitarfélagið að það taki málið upp til umræðu með hagsmunaaðilum, það er að skoðað verði að byggja upplýsta göngubraut frá Húsavík að Bakka eða komið verði á skipulögðum ferðum milli Húsavíkur við iðnaðarsvæðið á Bakka. Fleiri kostir eru einnig í boði sem rétt er að skoða til að tryggja öryggi vegfarenda.