Desemberuppbótin 2019

Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga ber atvinnurekendum  að greiða starfsfólki sínu desemberuppbót í byrjun desember ár hvert. Uppbótin er háð ákveðnum skilyrðum sem varða t.a.m. starfstíma og starfshlutfall á yfirstandandi ári. Desemberuppbót skal greiða í einu lagi og ofan á hana reiknast ekki orlof. Uppbótin er föst krónutala og tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamninga. Við starfslok á að gera upp áunna desemberuppbót.

Ekki er enn búið að semja við ríki eða sveitarfélögin og því gilda þar sömu upphæðir og í fyrra. Þegar búið verður að semja við ríki og sveitarfélögin þarf að greiða uppbót miðað við það sem samið verður um. Sett verður inn frétt á heimasíðuna með réttum upphæðum um leið og samningar nást.

Almenni markaðurinn – kr. 92.000,-
Þeir sem eru í starfi fyrstu viku í desember eða hafa verið samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eiga rétt á uppbót eigi síðar en 15. desember. Fullt ársstarf m.v. 45 vikur eða 1.800 klst. á tímabilinu 1. janúar til 31. desember.

Ríkið – ósamið

Kjarasamningar hafa ekki tekist milli ríkisins og Starfsgreinasambandsins og því liggur ekki fyrir hver desemberuppbótin verður í ár. Hins vegar er hefð fyrir því að greiða, við slíkar aðstæður, desemberuppbót fyrra árs sem er kr. 89.000,-. Desemberuppbótin leiðréttist síðar þegar gengið hefur verið frá endanlegum kjarasamningi. Þeir sem eru við störf fyrstu viku nóvember eða hafa starfað í 13 vikur samfellt á árinu skulu fá greidda desemberuppbót 1. desember ár hvert. Full uppbót miðast við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október. Hafi starfsmaðurinn gegnt hlutastarfi eða unnið hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall á framangreindu tímabili. Á sama hátt skal einnig starfsmaður sem látið hefur af starfi en starfað hefur samfellt í a.m.k. 3 mánuði (13 vikur) á árinu, fá greidda desemberuppbót, miðað við starfstíma og starfshlutfall. Sama gildir þótt starfsmaður sé frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu stofnunar lýkur eða í allt að 6 mánuði vegna fæðingarorlofs.

Sveitarfélög – ósamið

Kjarasamningar hafa ekki tekist milli sveitarfélaga og Starfsgreinasambandsins og því liggur ekki fyrir hver desemberuppbótin verður í ár. Hins vegar er hefð fyrir því að greiða, við slíkar aðstæður, desemberuppbót fyrra árs sem er kr. 113.000,-. Desemberuppbótin leiðréttist síðar þegar gengið hefur verið frá endanlegum kjarasamningi. Þeir sem starfað hafa frá 1. september skulu fá greidda desemberuppbót 1. desember ár hvert. Full uppbót miðast við fullt starf tímabilið 1. janúar til 30. nóvember. Desemberupphæðin miðast við starfstíma og starfshlutfall. Þeir sem láta af störfum á árinu eiga rétt á desemberuppbót hafi þeir starfað samfellt í 6 mánuði. Greitt er miðað við starfstíma og starfshlutfall og miðast þá tímabilið við 1. janúar til 31. desember.

Meðfylgjandi þessari frétt er mynd af góðu fólki sem lengi kom að stjórnun Verkalýðsfélags Húsavíkur, Kristjáni Ben, Helga Bjarna, Kristjáni Mik, Helgu Gunnars og Kristjáni Ásgeirs.

 

Deila á