Framsýn-UNG kallar eftir aðgerðum í loftlagsmálum

Framsýn-UNG tekur heilshugar undir með ASÍ-UNG sem kallar eftir aðgerðum í loftlagsmálum.

Áskorun frá ASÍ-UNG og Evrópusambandi verkalýðsfélaga/ETUC

ASÍ-UNG hvetur aðildarfélög ASÍ til að grípa til aðgerða vegna hamfarahlýnunar í tengslum við alþjóðlegu viku loftslagsaðgerða frá 20. – 27. september. Heimsátakið er skipulagt vegna umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldinn verður í New York þann 23. september.

Á þingi ETUC fyrr á þessu ári í Vín var samþykkt ályktun um mikilvægi þess að virkja stéttarfélög og félagsmenn til aðgerða næstu fjögur árin vegna hamfarahlýnunar af mannavöldum. Í aðgerðaáætlun ETUC 2019-2023 skuldbinda samtökin sig til að vinna markvisst að róttækum loftslagsaðgerðum.

Á undanförnum misserum höfum við meðal annars upplifað fordæmalausa skógarelda í Amazon og Síberíu, bráðnun jökla á norðurslóðum, banvæna monsúnvinda á Indlandi og hitabylgjur um alla Evrópu. Þetta hefur allt haft mikil áhrif á líf og störf fólks. 

Allt síðasta ár hefur ungt fólk vakið athygli á þeirri vá sem hamfarahlýnun af mannavöldum er með vikulegum loftlagsverkföllum þar sem krafist er aukinna aðgerða stjórnvalda í loftlagsmálum.

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna svarar ákalli unga fólksins og hefur boðað leiðtoga heims til loftlagsráðstefnu í New York. Af því tilefni hvetur unglingahreyfingin til loftlagsverkfalla og vitundarvakningar vikuna 20. – 27. september (sjá: https://globalclimatestrike.net/).

Við hvetjum aðildarfélög til þess að vera virk í baráttunni gegn hamfarahlýnun og standa vörð um félagslegt réttlæti (e. Just Transition) í þeim breytingum sem fram undan eru á vinnumarkaði.

ASÍ-UNG hvetur öll aðildarfélög ASÍ til þess að taka virkan þátt í aðgerðavikunni 20.-27. september. Loftslagsverkfall – Ísland hefur meðal annars boðað til loftlagsverkfalls á föstudaginn kemur, 20. september. Á Facebook síðu þeirra má svo einnig sjá lista fyrir fjölda annarra viðburða sem skipulagðir hafa verið í tengslum við aðgerðavikuna.  

Hægt er að leggja málefninu lið með því að vekja athygli á vefsíðum og samfélagsmiðlum auk þess að taka þátt í skipulögðum viðburðum.

Sýnum samstöðu gegn hamfarahlýnun af mannavöldum!  

Stjórn ASÍ-UNG

 

 

Deila á