Í sumar er starfandi Vinnuskóli Norðurþings fyrir ungmenni fædd árin 2004, 2005 og 2006 þ.e. þeir sem í vor ljúka 7., 8. og 9. bekk. Vinnuskólinn er opin ungmennum sem eru með skráð lögheimili í sveitarfélaginu eða eiga foreldra/foreldri sem er með lögheimili í sveitarfélaginu. Helstu verkefni Vinnuskólans varða snyrtingu og fegrun sveitarfélagsins, í þéttbýli og í dreifbýli. Unglingarnir vinna að skemmtilegum og uppbyggilegum hliðarverkefnum. Í morgun var komið að því að heimsækja stéttarfélögin og fræðast um starfsemi stéttarfélaga. Um 30 ungmenni með flokkstjórum komu við hjá stéttarfélögunum og fengu fræðslu um starfsemina. Ungmennin voru hress og spurðu út í ýmislegt sem þau vildu fræðast um. Stéttarfélögin þakka þeim fyrir komuna.