Félagsmenn Þingiðnar ánægðir með starfsemi félagsins

Aðalfundur Þingiðnar fór fram í gærkvöldi í fundarsal stéttarfélaganna. Á fundinum kom fram ánægja með starfsemi og rekstur félagsins. Hér má lesa skýrslu stjórnar og gögn sem lögð voru fram á fundinum.

Fundir
Fundir í stjórnum og nefndum sem fulltrúar Þingiðnar hafa setið frá síðasta aðalfundi sem haldinn var 16. maí 2018 eru eftirfarandi:

Stjórnarfundir 4
Félagsfundir 1
Fundir í sameiginlegri Orlofsnefnd stéttarfélaganna 1
Fundir í fulltrúaráði stéttarfélaganna 1
Sameiginlegur fundur stéttarfélaga um Atvinnuþróunarfélagið 1
Fundir í 1. maí nefnd 1
Fundir skoðunarmanna reikninga 1
Fundir í stjórn sjúkrasjóðs 12
Samtals fundir 22

Formaður félagsins hefur verið virkur í starfi og sótt fundi á vegum félagsins s.s á vegum Lsj. Stapa, Alþýðusambands Íslands, Alþýðusambands Norðurlands og Samiðnar.

Þá er samkomulag um að starfsmenn félagsins sjái um úthlutanir úr sjúkrasjóði í umboði stjórnar Þingiðnar.

Góð tenging er milli formanns félagsins og forstöðumanns Skrifstofu stéttarfélaganna sem funda reglulega um starfsemina og rekstur félagsins.

Eftirtaldir hafa setið í stjórn félagsins: Jónas Kristjánsson, Vigfús Þór Leifsson, Hólmgeir Rúnar Hreinsson, Þórður Aðalsteinsson og Kristinn Gunnlaugsson. Kjörtímabilið er frá 2018 til 2020.

Félagatal Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2018 voru 126, það er greiðandi félagar, öryrkjar og aldraðir sem áður greiddu til félagsins. Greiðandi einstaklingar voru 110 á árinu samkvæmt ársreikningum félagsins. Karlar voru 108 og konur 2.

Þess ber að geta að nú er aftur komið jafnvægi á fjölda félagsmanna eftir stórframkvæmdirnar á Bakka og á Þeistareykjum. Félagsmönnum fjölgaði verulega meðan á framkvæmdunum stóð en hefur heldur fækkað frá þeim tíma sem á sínar eðlilegu skýringar enda framkvæmdum að mestu lokið í dag.

Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 12.352.510 sem er 21,6% hækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir á árinu 2018 námu kr. 4.986.577, þar af úr sjúkrasjóði kr. 3.922.164 sem er umtalsverð hækkun frá fyrra ári sem skýrist að mestu af greiðslu sjúkradagpeninga.

Á árinu 2018 fengu samtals 43 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði.

Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 4.686.899 og eigið fé í árslok 2018 nam kr. 233.390.406 og hefur það aukist um 2,0% frá fyrra ári.

Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 4.062.308.

Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma að undanskildum örfáum tilvikum þar sem ítreka þarf skil á iðgjöldum til félagsins.

Orlofsmál
Í gegnum tíðina hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið.

Þingiðn á eina íbúð í Þorrasölum í Kópavogi.

Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum stéttarfélaganna. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 50.000 fyrir viku dvöl.

Þá fengu 16 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 329.199,-.

Til stóð að stéttarfélögin stæðu fyrir gönguferð um Mývatnssveit síðasta sumar en vegna þátttökuleysis var hætt við ferðina. Í sumar stendur til að fara í dagsferð í Flateyjardal laugardaginn 17. ágúst.

Félagsmönnum stéttarfélaganna hefur staðið til boða að kaupa gistimiða og ódýr flugfargjöld með Flugfélaginu Erni. Með upptöku á nýjum orlofsvef á síðasta ári opnaðist á frekari möguleika fyrir félagsmenn varðandi afþreyingu og afsláttarkjör. Kerfinu er jafnframt ætlað að auðvelda félagsmönnum að panta flug og fleira í gegnum netið.

Þorrasalir 1-3
Útleiga á íbúð félagsins í Kópavogi hefur gengið vel og hefur nýtingin verið mjög góð. Það sama á við um þau orlofshús sem félagið hefur haft á leigu í samstarfi með öðrum aðildarfélögum skrifstofu stéttarfélaganna. Þess ber að geta að íbúð félagsins í Þorrasölum var máluð á síðasta ári og er í góðu standi.

Fræðslumál
Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn í gegnum nýja fræðslusjóðinn sem félagið stofnaði til á síðasta aðalfundi félagsins. Á síðasta ári fengu 8 félagsmenn styrki til náms/námskeiða samtals kr. 364.000.

Málefni sjúkrasjóðs
Eins og fram kemur í ársreikningum félagins voru greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins samtals kr. 3.922.164 á árinu 2018 sem er veruleg hækkun milli ára. Árið 2017 voru greiddar kr. 1.538.644 í styrki til félagsmanna.

Greiðslur til 43 félagsmanna árið 2018 skiptast þannig:

Almennir sjúkrastyrkir kr. 1.386.519,-
Sjúkradagpeningar og fæðingastyrkir kr. 2.535.645,-.

Kjaramál
Skrifað var undir nýjan kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar 3. maí 2019 með gildistíma til 1. nóvember 2022.
Megin áherslur iðnaðarmanna í þessum samningum voru að tryggja þann árangur sem náðst hefur á síðustu árum og tryggja forsendur fyrir áframhaldandi kaupmætti á samningstímanum, uppfæra kauptaxtakerfið og stytta vinnuvikuna.
Varðandi almennar hækkanir tekur samningurinn mið af þeim samningum sem gerðir voru 3. apríl s.l. á vegum Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Áherslur Samiðnar nú voru að lyfta þeim sem eru á lægstu laununum upp og með nýju launakerfi í gegnum fyrirtækjasamninga á seinnihluta samningstímans, verði horft til heildarinnar.
Varðandi kauptaxtakerfið þá náðist samkomulag um að stokka það upp og skera neðstu taxtana af og í framtíðinni verði launaákvarðanir meira teknar út í fyrirtækjunum í gegnum nýtt launakerfi. Samiðn bindur vonir við innleiðingu nýs launakerfis og að það geti skilað góðum árangri þegar frammi sækir. Ef vel til tekst ætti það að skila sér til allra bæði í stórum og minni fyrirtækjum en það ræðst að miklu leyti á því hvernig stéttarfélögin fylgja málinu eftir. Stjórn Þingiðnar hefur almennt áhyggjur af því hvernig menn ætla sér að láta þessar breytingar ganga eftir, það verður ekki auðvelt fyrir starfsmenn einstakra fyrirtækja að ná fram bættum kjörum í vinnustaðasamningi.
Á næstu mánuðum verður lögð vinna í á vegum Samiðnar að útfæra launakerfið en í kjarasamningum eru lagðar megin línurnar sem eftir er að útfæra betur. Í framhaldinu verður launakerfið kynnt ekki síst fyrir trúnaðarmönnum á vinnustöðum og þegar kemur fram á næsta ár hefst innleiðingin á vinnustöðum.
Kjarasamningurinn tryggir að stigin verða áþreifanleg skref í styttingu vinnuvikunnar að mati Samiðnar. Í fyrsta lagi verður tekinn upp virkur vinnutími sem þýðir að virkur vinnutími verður 37 vinnustundir á viku frá 1. apríl 2020 sem hækkar tímavinnu einingu í dagvinnu um 8,33% en heildarlaun verða óbreytt miðað við 40 vinnustundir. Frá sama tíma verður breyting á yfirvinnu og verður hún tvískipt. Yfirvinna eitt, sem er fyrir 16 yfirvinnustundir á fjögra vikna launatímabili, og yfirvinna tvö, sem greiðist fyrir vinnutíma umfram 41 virka klst. á viku að meðaltali á launatímabili /mánuði. Yfirvinna tvö er einnig greidd fyrir vinnu á nóttu á tímabilinu frá kl. 00.00-06.00. En og aftur á stjórn Þingiðnar eftir að sjá að þessar breytingar gangi hreinlega upp. Tíminn einn mun leiða það í ljós.
Þann 1. janúar 2021 er gert ráð fyrir að stigið verði skref tvö en þá opnast möguleiki á að semja um styttingu vinnuvikunnar í 36 vinnustundir. Takist ekki að útfæra vinnutímastyttingu í fyrirtækjasamningum styttist vinnuvikan 1. janúar 2022 í 36 stundir og 15 mínútur. Margt fleira er í samningnum s.s. breyting á flutningi orlofsréttar og bakvaktarkafla.
Þingiðn stóð fyrir kynningarfundi um samninginn 14. maí þar sem félagsmönnum gafst kostur á að kynna sér samninginn. Því miður sáu sér ekki margir fært að koma á fundinn. Í því sambandi er rétt að hvetja félagsmenn til að vera virka í starfsemi félagsins. Það á að þykja sjálfsagt og eðlilegt mál að menn mæti á fundi til að hafa áhrif á kröfugerð félagsins, það er jafn eðlilegt að menn mæti á kynningarfundi um kjarasamninga og greiði atkvæði um þá. Almennt er það áhyggjuefni hvað menn eru áhugalausir um sín mál innan verkalýðshreyfingarinnar. Því þurfum við að breyta.
Samningur SA og Samiðnar fór í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sem samþykktu hann líkt og félagsmenn annarra aðildarfélaga Samiðnar fyrir utan eitt iðnaðarmannafélag á Ísafirði.

Niðurstaðan:

Á kjörskrá voru 76 félagsmenn Þingiðnar, atkvæði greiddu 31 eða 40,79%
Já sögðu 20 eða 64,5%
Nei sögðu 10 eða 32,3%
Tek ekki afstöðu 1 eða 3,2%

Undir þessum lið er rétt að geta þess að félagið gekk frá sérkjarasamningi við PCC um launakjör iðnaðarmanna í verksmiðju fyrirtækisins á Bakka. Skrifað var undir samninginn 5. júní 2019 í samstarfi við Framsýn stéttarfélag en félögin tvö stóðu að þessum samningi. Gildistími samningsins er til 1. nóvember 2022 og verður þá endurnýjaður. Að mati stjórna félaganna er um að ræða góðan samning fyrir bæði iðnaðarmenn og framleiðslustarfsmenn þar sem í samningnum fellst mikil kjarabót fyrir starfsmenn PCC. Eftir kynningar með starfsmönnum var hann samþykktur samhljóða.

Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit
Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum er almennt mjög gott um þessar mundir og mikið að gera hjá flestum ef ekki öllum iðnaðarmönnum enda hafa töluverðar framkvæmdir verið í gangi á svæðinu.

Heilt yfir er ástand vinnumarkaðarins á starfssvæðinu gott. Vitaskuld koma annað slagið upp mál sem krefjast viðbragða, við það verður ekki sloppið. Enn fremur er ljóst að gott ástand vinnumarkaðarins gerist ekki að sjálfu sér. Enginn vafi er á því að ef eftirlit og aðhald stéttarfélaganna væri ekki til staðar, myndi ástandið versna til muna. Það sést til dæmis á því að forsvarsmenn fyrirtækja sem koma með starfsemi inn á svæðið leita mikið eftir aðstoð og þjónustu stéttarfélaganna. Í dag eru stéttarfélögin með starfsmann í hálfu starfi við vinnustaðaeftirlit.

Hátíðarhöldin 1. maí
Stéttarfélögin stóðu fyrir hátíðarhöldum í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2019. Hátíðarhöldin tókust að venju frábærlega en um 600 gestir lögðu leið sína í höllina. Um er að ræða fjölmennustu samkomu sem haldin er í Þingeyjarsýslum á hverju ári sem er áhugavert og mikil viðurkenning á starfsemi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem leggja mikið upp úr þessum degi. Hátíðarhöldin voru tileinkuð baráttu eldri borgara fyrir bættum kjörum. Aðalræðumaður dagsins var Ásdís Skúladóttir frá Gráa hernum.

Starfsemi félagsins
Þingiðn hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra:

• Félagið hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn.

• Aðildarfélög skrifstofu stéttarfélaganna stóðu fyrir opnu húsi á aðventunni í desember líkt og undanfarin ár. Boðið var upp á kaffi, tertur og tónlistaratriði. Fjölmargir lögðu leið sína til stéttarfélaganna og þáðu veitingar.

• Félagið kom að því að styðja aðeins við bakið á íþróttastarfi Völsungs með ýmsum hætti í gegnum styrki.

• Félagið niðurgreiddi leikhúsmiða til félagsmanna á leiksýningar á vegum Leikfélags Húsavíkur og Leikdeildar Eflingar. Leikritin voru til sýningar eftir áramótin 2019.

• Félagið hefur komið að kynningum á starfsemi stéttarfélaga í grunnskólum á félagssvæðinu með Framsýn stéttarfélagi.

• Félagsmönnum stóð til boða að fá félagsjakka á síðasta ári sem flestir notfærðu sér.

Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs
Markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu á svæðinu. Góð reynsla er af starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs á svæðinu s.l. ár. Stöðugleiki er í starfseminni og góð samvinna er við heilbrigðis- og félagsþjónustu, úrræðaaðila s.s. Sjúkraþjálfun Húsavíkur og fyrirtæki og stofnanir eru virk í samvinnu um málefni starfsmanna sinna sem glíma við heilsubrest. Mikið er lagt upp úr að þjónustan sé sýnileg og aðgengileg, hvort heldur til almennrar ráðgjafar fyrir félagsmenn, formlegrar samvinnu við einstaklinga í starfsendurhæfingu eða samstarf við úrræðaaðila og launagreiðendur.

Eitt stöðugildi er á Skrifstofu stéttarfélaganna sem Virk greiðir kostnað við. Núverandi starfsmaður er Ágúst S. Óskarsson.

Samkomulag við Flugfélagið Erni
Félagið kom að samningi með Framsýn stéttarfélagi við Flugfélagið Erni um kaup á flugmiðum um síðustu áramót, alls 4800 miðum á ákveðnu verði. Félagsmenn geta flogið fyrir kr. 10.300 sem er vel innan við 50% frá fullu verði. Um er að ræða töluverða kjarabót fyrir félagsmenn sem tryggir um leið að flug haldist milli Húsavíkur og Reykjavíkur en rekstur flugfélaga er um þessar mundir mjög erfiður.

Félagsmönnum stéttarfélaganna stendur til boða að kaupa gistimiða og ódýr flugfargjöld sem skiptast þannig fyrir árið 2018:

Seldir flugmiðar 5.545 Sparnaður fyrir félagsmenn kr. 66.540.000,-
Seldir gistimiðar 854 Sparnaður fyrir félagsmenn kr. 1.964.200,-
Samtals sparnaður fyrir félagsmenn kr. 68.504.200,-

Sambærilegar tölur fyrir 2017 eru eftirfarandi:
Seldir flugmiðar 4.470 Sparnaður fyrir félagsmenn kr. 49.617.000,-
Seldir gistimiðar 739 Sparnaður fyrir félagsmenn kr. 1.625.800,-
Samtals sparnaður fyrir félagsmenn kr. 52.302.250,-

Þess má geta að árið 2018 flugu 14.332 farþegar um Húsavíkurflugvöll. Eins og sjá má var hlutfall félagsmanna stéttarfélaganna sem notfærðu sér flugið því verulega hátt eða 39% af heildar farþegafjöldanum. Flug um Húsavíkurflugvöll fór mest í 20.199 farþega árið 2016 þegar framkvæmdirnar á svæðinu vegna Bakka og Þeistareykja stóðu hvað hæst.

Húsnæði stéttarfélaganna
Rekstur á sameiginlegum eignum stéttarfélaganna hefur gengið vel. Félögin eiga í sameiningu skrifstofuhúsnæðið að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Þá eiga Framsýn og Þingiðn efri hæðina í sömu byggingu sem ber nafnið Hrunabúð sf. Eins og kunnugt er sagði VÍS um rýminu sem þau höfðu á leigu á neðri hæðinni. Í kjölfarið tók Sparisjóður Suður Þingeyinga rýmið á leigu.

Rekstur Hrunabúðar hefur gengið vel. Öll leigurými eru í notkun. Eignarhluturinn á efri hæðinni skiptist þannig: Framsýn á 84% og Þingiðn 16%. Ráðast var í lagfæringar á þakinu síðastliðið sumar þar sem það var einfaldlega ónýtt. Norðurvík sá um framkvæmdina.

Málefni skrifstofunnar Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 5 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi og tveir starfsmenn eru í hlutastarfi við vinnustaðaeftirlit og þrif/ræstingar. Til viðbótar eru fjórir starfsmenn í 0,5% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu stéttarfélaganna.

Stéttarfélögin halda úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni.

Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla. Ekki eru fyrirsjáanlegar frekari breytingar á rekstri skrifstofunnar.

Góð nýting er á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna.

Til viðbótar má geta þess að Framsýn fékk Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri til að gera könnun á ákveðnum þáttum í starfsemi félagsins og stéttarfélaganna. Útkoman er glæsileg. Helstu niðurstöður úr könnuninni eru aftar í skýrslunni. Það á einnig við um tölfræðilegar upplýsingar um fjölda félagsmanna, iðgjöld til Þingiðnar og styrki úr sjúkra- og fræðslusjóðum félagsins.

Lokaorð
Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.

 

Deila á