Sérkjarasamningur við PCC BakkiSilicon undirritaður

Sérkjarasamningur milli Framsýnar stéttarfélags og Þingiðnar, félagi iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum annarsvegar og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd PCC BakkiSilicon hinsvegar var undirritaður um klukkan 19:00 í gærkvöldi í húsnæði Samtaka atvinnulífsins. Eftirfarandi yfirlýsing var gefin út í kjölfar undirritunarinnar:

„Í dag var undirritaður sérkjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins f.h. PCC Bakkisilicon hf. og stéttarfélaganna Framsýnar og Þingiðnar. Samningurinn byggir á Lífskjarasamningnum sem undirritaður var 3. apríl 2019, m.a. hvað varðar launabreytingar, forsendur og styttingu vinnutíma. Tekið er upp nýtt launakerfi sem byggir á starfsaldri, hæfni í starfi og skiptingu ávinnings vegna bættrar framleiðslu, aukinna gæða og annarra þátta sem áhrif geta haft á rekstur fyrirtækisins og vinnuumhverfi starfsmanna. Þá verður einnig lögð áhersla á frekari starfsþjálfun á vinnustað og að starfsmenn geti stöðugt aukið við færni sína og þekkingu‟.

Myndin að ofan er af Aðalsteini Á. Baldurssyni, formanni Framsýnar og Steinþóri Þórðarsyni frá PCC BakkiSilicon.

Deila á