Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 4%. Góðar fréttir, segir Drífa Snædal forseti ASÍ, og til marks um að við erum komin inn í skeið vaxtalækkunar.
Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í maíhefti Peningamála hafa hagvaxtarhorfur breyst verulega frá síðustu spá bankans. Í stað 1,8% hagvaxtar á þessu ári eins og gert var ráð fyrir í febrúar er nú spáð 0,4% samdrætti. Þessi umskipti stafa einkum af samdrætti í ferðaþjónustu og minni útflutningi sjávarafurða vegna loðnubrests. Af þessum sökum mun framleiðsluspenna snúast í slaka á næstunni.
Verðbólga var 3,1% á fyrsta fjórðungi ársins en jókst í 3,3% í apríl. Undirliggjandi verðbólga hefur þróast með áþekkum hætti og munurinn milli mælikvarða á verðbólgu með og án húsnæðis hefur ekki verið minni frá haustinu 2013. Gengi krónunnar hefur haldist tiltölulega stöðugt það sem af er ári en áhrif lækkunar þess sl. haust á verðbólgu hafa enn sem komið er verið minni en vænst var. Viðsnúningur í efnahagsmálum gerir það að verkum að verðbólguhorfur hafa breyst nokkuð á skömmum tíma og gerir spá bankans ráð fyrir að verðbólga nái hámarki í 3,4% um mitt ár en hjaðni í verðbólgumarkmið um mitt næsta ár.
Þótt nýgerðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði feli í sér myndarlegar launahækkanir var niðurstaða þeirra í betra samræmi við verðbólgumarkmiðið en margir bjuggust við. Verðbólguvæntingar hafa því lækkað á ný en þær hækkuðu umtalsvert er leið á síðasta ár. Langtímaverðbólguvæntingar á markaði eru nú komnar undir 3%.
Samdráttur í þjóðarbúskapnum mun reyna á heimili og fyrirtæki en viðnámsþróttur þjóðarbúsins er umtalsvert meiri nú en áður. Svigrúm peningastefnunnar til að mæta efnahagssamdrættinum er einnig töluvert, sérstaklega ef fer sem horfir og verðbólga og verðbólguvæntingar haldast við verðbólgumarkmið. Þá munu boðaðar aðgerðir stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga leggjast á sömu sveif.
Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.