Stór stund á Húsavík – eftirlaunafólki boðið að tala á 1. maí

„Dagurinn í dag er söguleg stund því þetta er í fyrsta sinn sem eftirlaunafólki er boðið að halda sjálfa hátíðarræðuna á degi verkalýðsins 1. maí. Það sem meira er dagurinn hér á Húsavík er helgaður baráttu eldri borgara fyrir bættum kjörum.“

Þetta sagði aðal ræðumaður hátíðarhaldanna á Húsavík, Ásdís Skúladóttir í magnaðri ræðu.

Ásdís hélt áfram og sagði meðal annars:

„Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum: Framsýn, stéttarfélag – Starfsmannafélag Húsavíkur og Þingiðn, félag iðnaðarmanna, hafa boðið eftirlaunafólki að láta rödd sína hljóma hér í dag. Þetta eru tímamót í sögu 1. maí hér á landi. Heill því fólki sem tók þessa ákvörðun. 

Við erum stolt og glöð ég, Erna Indriðadóttir og Viðar Eggertsson að fá að vera hér í dag á Húsavík og fagna með ykkur 1. maí sem fulltrúar Gráa hersins.

Krafa okkar á þessum degi er algjörlega skýr: Við krefjumst þess að fá sömu launahækkanir fyrir eldri borgara og lægst launaða fólkið á íslenskum vinnumarkaði samdi um í nýgerðum kjarasamningum. Við viljum sömu hækkanir frá og með 1. apríl eins og aðrir hafa samið um.  

Á landsfundi eldri borgara í síðasta mánuði komu hins vegar fram mikil gleðitíðindi því einn aðgerðarhópur Gráa hersins hefur nú þegar hafið undirbúning málsóknar gegn ríkinu og stofnað til þess sérstakan sjóð „Málsóknarsjóð Gráa hersins“ Þessi málsókn er hafin vegna „óréttlátra og yfirgengilegra tekjutenginga“. Í aðgerðahópnum er nú verið að vinna að skipulagsskrá sjóðsins í samráði við lögmenn Málflutningsstofu Reykjavíkur.  

Að fara í málssókn hefur lengi verið til umræðu. Það sem hefur hamlað er auraleysi. Framsýn stéttarfélag gekk að vísu fram fyrir skjöldu fyrir margt löngu og sagðist myndu styrkja dómsmálið fjárhagslega. Það gaf byr í seglinn. Síðan gerðist það að Verslunarmannafélag Reykjavíkur ákvað eftir fund Gráa hersins með Ragnari Þór Ingólfssyni, að VR myndi styrkja Gráa herinn til að ráðast í slík málaferli, Félag málmiðnaðarmanna hefur gert hið sama, Rafiðnaðarsamband Íslands samþykkt að leggja fram fjármagn og Félag eldri borgara í Reykjavík hefur samþykkti að gerast stofnaðili að málsóknarsjóðnum og að leggja fram peninga. Síðan hafa borist fyrirheit frá fleiri stéttarfélögum, félögum eldri borgara og einstaklingum um peningalegan stuðning. Þessari málsókn er ætlað að fara „Alla leið“ – upp eftir öllum dómsstigunum og enda fyrir Mannréttindadómstólnum í Strassburg, ef með þarf.“ 

Hægt er að lesa ræðu Ásdísar í heild sinni undir annarri frétt á heimasíðunni.

Stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum hafa borist fjölmargar kveðjur frá eldri borgurum víða um land fyrir ákvörðun félaganna um að helga 1. maí hátíðarhöldin á Húsavík baráttu eldri borgara. Stéttarfélögin þakka fyrir allar hlýju kveðjurnar.

 

Deila á