Hátíðarhöld stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum fóru fram í Íþróttahöllinni á Húsavík í gær. Að venju tókust þau afar vel en um 600 manns lögðu leið sína í höllina. Áberandi var hvað mikið var af fólki sem kom langt að, Grenivík, Akureyri, Ólafsfirði, Siglufirði svo eitthvað sé nefnd. Ræðumenn dagsins, Aðalsteinn Árni og Ásdís Skúladóttir fengu mikið lof fyrir sínar ræður sem og þeir skemmtikraftar sem komu fram. Guðni Ágústsson klikkaði ekki hvað þá Söngfélagið Sálubót sem sjaldan eða aldrei hefur verið í betra formi. Eyþór Ingi, Sigga Beinteins og Grétar Örvarsson kunna sitt fag og skiluðu því vel til ánægðra gesta. Barnabörn Kristjáns Ásgeirssonar fyrrverandi formanns Verkalýðsfélags Húsavíkur sem minnst var á hátíðinni, þau Elísabet Anna og Kristján Elinór tóku Maístjörnuna með viðeigandi hætti og voru glæsileg á sviði. Stéttarfélögin vilja nota tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu gestum sem lögðu leið sína í höllina fyrir komuna, skemmtikröftum og þeim félagsmönnum sem komu að því að gera umgjörð hátíðarinnar sem glæsilegasta fyrir þeirra framlag.