Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum: Framsýn, stéttarfélag – Starfsmannafélag Húsavíkur og Þingiðn, félag iðnaðarmanna, standa fyrir mikilli hátíðardagskrá á baráttudegi verkalýðsins, 1. maí, í ár á Húsavík sem brýtur blað í sögu slíkra hátíðarhalda á Íslandi.
Eftir því sem við komumst næst er þetta í fyrsta skipti í sögunni, hér á landi, sem hátíðarhöldin á baráttudegi verkalýðsins eru tileinkuð eldri borgurum og baráttu þeirra fyrir bættum kjörum í þjóðfélaginu; baráttu fyrir að loks muni renna upp sá dagur að allir aldraðir lifi áhyggjulaust ævikvöld.
Stéttarfélögin þrjú hafa boðið einum af stofnendum Gráa hersins, Ásdísi Skúladóttur leikstjóra, til að flytja hátíðarræðu dagsins. Hún mun flytja ræðuna sem fulltrúi eldri borgara. Baráttuhópurinn Grái herinn var stofnaður af félögum í Félagi eldri borgara í Reykjavík.
Með þessari ákvörðun vilja stéttarfélögin styðja við baráttu þeirra fjölmörgu eldri borgara sem hafa lagt stéttarfélögum lið í gegnum tíðina og eru nú komnir á eftirlaun; eftirlaun sem mörgum þeirra reynist erfitt að framfleyta sér á vegna þeirra miklu skerðinga sem þeim er gert að sæta vegna löggjafar um eftirlaun frá almannatryggingum.
Hátíðin verður haldin í Íþróttahöllinni á Húsavík og hefst kl. 14.00 miðvikudaginn 1. maí n.k.
Dagskráin er afar fjölbreytt, eins og sjá má: HÉR
Því auk Ásdísar Skúladóttur Gráa hernum, koma fram grínararnir og söngvararnir Guðni Ágústsson, Eyþór Ingi, Sigga Beinteins og Grétar Örvarsson úr Stjórninni, Söngfélagið Sálubót og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar. Þá verður fundargestum boðið upp á kaffiveitingar meðan á hátíðinni stendur.
Nánari upplýsingar veita:
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags, sími: 464 6604 / 864 6604
Ásdís Skúladóttir, leikstjóri og einn stofnenda Gráa hersins, sími: 551 6603 / 666 7810
Erna Indriðadóttir, fjölmiðlakona og félagi í Gráa hernum, sími: 854 6630
Viðar Eggertsson, leikstjóri og félagi í Gráa hernum, sími: 898 8661