Jöfnum kjörin – samfélag fyrir alla

Á fundi miðstjórnar ASÍ 20. mars sl. var samþykkt yfirskrift fyrir aðgerðirnar á 1. maí n.k.: Jöfnum kjörin – samfélag fyrir alla

Í greinargerð með yfirskriftinni segir:

Kröfur verkalýðshreyfingarinnar í yfirstandandi kjaraviðræðum endurspegla það óréttlæti sem hefur verið að læsa sig um íslenskt samfélag. Ójöfnuður hefur aukist og sífellt fleiri hópar sitja eftir í samfélagi sem hefur alla burði til að gera betur. Þúsundir barna alast upp við fátækt, staða kvenna og einstæðra karla í láglaunastörfum er vægast sagt þröng, margir útlendingar á vinnumarkaði búa við hörmulegar aðstæður og hópur aldraðra og öryrkja nær ekki endum saman. Þetta er ekki ásættanleg staða í einu ríkasta landi heims. Við viljum samfélag þar sem fólk getur lifað með reisn, þar sem öll börn hafa sömu möguleika, þar sem full vinnandi fólk þarf ekki að hokra í fátækt.

Ótal rannsóknir og kannanir sýna að þeim samfélögum farnast best þar sem jöfnuður er mestur. Þar sem enginn er skilinn eftir. Vissulega er jöfnuður meiri hér á landi en víða annars staðar en við getum gert svo miklu betur. Hvernig má það vera í samfélagi sem kennir sig við velferð að skattbyrði þeirra tekjulægstu hefur verið þyngd á meðan skattar þeirra tekjuhæstu lækka. Það er öfugmælavísa úr leikhúsi fáránleikans. Kröfur verkalýðshreyfingarinnar í viðræðum við atvinnurekendur eru tilraun til að laga þetta óréttlæti. Það er nefnilega nóg til fyrir alla.

Jöfnum kjörin í okkar gjöfula landi og búum þannig til gott samfélag fyrir okkur öll.

ASÍ óskar launafólki til hamingju með daginn og hvetur til samstöðu í aðgerðum stéttarfélaganna 1. maí.

Deila á