Björgólfur gagnrýnir Samgöngustofu og Isavia

Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair group gagnrýnir Samgöngustofu og Isavia í viðtali á Visir.is í dag. Þar fer hann yfir svartsýnisspár vegna hugsanlegs gjaldþrots WOW air en hann telur áhrifin af mögulegu gjaldþroti ofmetinn. Hugsanlegt gjaldþrot WOW air hefur verið talin góð ástæða til að fara varlega í launahækkunum í yfirstandandi kjarasamningaviðræðum.

Auk þess gagnrýnir Björgólfur Isavia fyrir kyrrsetningu stærstu flugvélar Flugfélagsins Ernis en það félag skuldar Isavia tæpar 100 milljónir á meðan WOW air skuldar tæpa tvo milljarða samkvæmt heimildum fjölmiðla.

Kyrrsetning flugvélar Ernis kom sér afar illa fyrir flugfélagið en verið var að þjálfa flugmenn á einmitt þeim tíma til þess að fljúga nýrri og stærri vél félagsins.

Björgólfur segir ennfremur að til þess að fá flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu þurfi að uppfylla viss skilyrði sem vandséð sé að WOW air hafi gert lengi.

Deila á