Reiði meðal fundarmanna – Samþykkt samhljóða að afturkalla samningsumboðið frá SGS

Samninganefnd Framsýnar sem skipuð er stjórn og trúnaðarráði félagsins kom saman til fundar í gærkvöldi. Til fundarins voru einnig boðaðir trúnaðarmenn Framsýnar frá öllum helstu vinnustöðum í Þingeyjarsýslum sem og stjórn Framsýnar-ung. Þá óskuðu fulltrúar úr stjórn Verkalýðsfélags Þórshafnar eftir því að sitja fundinn og var það heimilað. Á fundinum fór formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, yfir stöðuna í kjaraviðræðunum við Samtök atvinnulífsins. Eins og við mátti búast, var fundurinn fjörugur og reiði fundarmanna endurspeglaðist út í Samtök atvinnulífsins að virða ekki kröfur verkafólks um mannsæmandi laun og þá vöktu tillögur stjórnvalda til lausnar kjaradeilunni ekki mikla gleði. Fundurinn hafnar öllum hugmyndum um að gefa eftir réttindi verkafólks varðandi lengingu á dagvinnutímabili, fleytingu á dagvinnu milli vikna/mánaða, breytingum á neysluhléum og yfirvinnuálagi til lækkunnar.

Í lok fundar var eftirfarandi samþykkt gerð samhliða greinagerð um stöðu mála og ástæður þess að Framsýn telur sig ekki eiga lengur samleið með Starfsgreinasambandi Íslands hvað kjarasamningsgerðina varðar við Samtök atvinnulífsins.

 Ályktun fundarins:

„Fundur stjórnar Framsýnar, trúnaðarráðs og Framsýnar-ung með trúnaðarmönnum félagsins á öllum helstu vinnustöðum á félagssvæði Framsýnar samþykkir samhljóða að afturkalla samningsumboð félagsins frá Starfsgreinasambandi Íslands.

Jafnframt verði óskað eftir samstarfi við Eflingu stéttarfélag, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur og VR um sameiginlega aðkomu að kjarasamningsgerð við Samtök atvinnulífsins og þau félög sem velja að fara sömu leið og Framsýn.

Þá hafi samninganefnd félagsins sem skipuð er stjórn og trúnaðarráði Framsýnar fullt umboð til að afturkalla samningsumboðið frá Landssambandi íslenskra verslunarmanna telji samninganefndin tilefni til þess.“

 Greinargerð með ályktun:

„Framsýn stéttarfélag hefur samþykkt að afturkalla samningsumboð félagsins frá Starfsgreinasambandi Íslands (SGS) vegna kjarasamninga sambandsins við Samtök atvinnulífsins (SA) sem félagið á aðild að. Á það við um samninga vegna almenna vinnumarkaðarins og samninga vegna starfsfólks í ferðaþjónustu.

Undanfarnar vikur og mánuði hafa staðið yfir kjaraviðræður milli samningsaðila sem skilað hafa árangri er varðar almenn atriði kjarasamninga og sérmál einstakra hópa eins og starfsfólks í ferðaþjónustu. Samningsaðilar hafa haldið fjölda funda til að vinna að þessum málum, sem er vel.

Hins vegar eru það mikil vonbrigði að þrátt fyrir að öflug stéttarfélög innan SGS; Efling, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Grindavíkur hafi alfarið hafnað hugmyndum Samtaka atvinnulífsins um skerðingar á yfirvinnuálagi, lengingu dagvinnutímabils og fleytingu á dagvinnutímum milli mánaða skuli sú umræða vera áfram í gangi í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og þeirra stéttarfélaga innan SGS sem ekki hafa þegar hafnað hugmyndum SA.

Krafa Samtaka atvinnulífsins hefur verið að fara með yfirvinnuálagið í 40% sem er í dag 80% af dagvinnugrunni. Framsýn hefur ítrekað látið bóka andstöðu sína í samninganefnd SGS og krafist þess að hugmyndum SA um vinnutímabreytingar væri vísað út af borðinu, en án árangurs. Önnur félög innan Starfsgreinasambandsins hafa verið tilbúin að skoða frekari útfærslur á þessum breytingum með ákveðnum fyrirvörum.

Þrátt fyrir að Framsýn virði skoðanir annarra stéttarfélaga innan Starfsgreinasambandsins sér félagið sér ekki annað fært en að afturkalla samningsumboðið frá sambandinu þar sem skoðanir aðildarfélaganna fara ekki saman hvað þetta varðar. Framsýn getur ekki lagt nafn sitt við það að skerða réttindi sem verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir af miklum eldmóði í gegnum tíðina til hagsældar fyrir verkafólk.

Þá skýtur það verulega skökku við að hugmyndir SA varðandi kröfur verkalýðshreyfingarinnar um styttingu vinnuvikunnar skulu snúast um að fella niður neysluhlé starfsfólks. Það er á sama tíma og stoðkerfisvandamálum fer fjölgandi meðal vinnandi fólks og kulnun í starfi er orðið viðvarandi vandamál. Lausn SA á þessum mikla vanda er að leggja til að heimilt verði að fella niður neysluhlé í vinnustaðasamningum.

Ábyrgð Samtaka atvinnulífsins er mikil í þessu máli, það er að halda úti viðræðum í margar vikur með það að markmiði að gera veigamiklar breytingar á tilhögun álagsgreiðslna, niðurfellingu neysluhléa og lengingu dagvinnutímabils, vitandi af óánægju stéttarfélaga innan SGS sem þegar hafa hafnað þessum hugmyndum með táknrænum hætti. Það er að ganga út úr samstarfi við önnur aðildarfélög Starfsgreinasambandsins, auk þess að boða til verkfalla sem er neyðarréttur stéttarfélaga gegn yfirgangi atvinnurekenda.

Framsýn stéttarfélag krefst þess að Samtök atvinnulífsins falli frá þessum hugmyndum og snúi sér að alvöru samningaviðræðum við aðildarfélög Alþýðusambands Íslands með það að markmiði að bæta kjör fólks í stað þess að krefja félögin um að gefa eftir sjálfsögð réttindi verkafólks gegn smávægilegum launahækkunum. Það er löngu tímabært að atvinnurekendur greiði starfsmönnum mannsæmandi laun í stað þess að halda úti láglaunastefnu á Íslandi. Sá tími er löngu liðinn og rúmlega það.

Þá er mikilvægt að stjórnvöld vakni til lífsins og geri sér grein fyrir alvarleika málsins. Stjórnvöld geta ekki setið hjá í þessari erfiðu kjaradeilu, kjaradeilu sem er ekki síst til staðar vegna þess mikla ójöfnuðar sem viðgengist hefur allt of lengi í íslensku samfélagi í skjóli ríkisvaldsins.

Framsýn stéttarfélag vill leggja sitt að mörkum til að samningar takist á næstu vikum. Framsýn kallar eftir sátt ekki ófriði. Forsendan að friði er að fullur vilji sé til þess meðal þeirra sem sitja hinum megin við borðið að ná fram ásættanlegum kjarasamningi fyrir láglaunafólk í landinu, svo einfalt er það.“

 

Þannig samþykkt á sameiginlegum fundi stjórnar Framsýnar, trúnaðarráðs, Framsýnar-ung og trúnaðarmanna félagsmanna á vinnustöðum í Þingeyjarsýslum þriðjudaginn 19. mars 2019.

 

 

Deila á