Starfsgreinasamband Íslands sendir Framsýn stéttarfélagi heldur kaldar kveðjur í dag með yfirlýsingu eftir að félagið tók ákvörðun um að afturkalla samningsumboðið frá sambandinu eftir ágreining sem kom upp milli aðila um vinnutímabreytingar. Ítrekað er í yfirlýsingunni „að samninganefnd Starfgreinasambandsins muni aldrei taka þátt í því að semja um að rýra kjör okkar fólks, hvort sem það lítur að vinnutíma, álagsgreiðslna eða annara þátta. Verkefni SGS sé að ná samningum um bætt kjör okkar fólks, við einbeittum okkur að því í samhljómi við félaga okkar í Eflingu, Verkalýðsfélagi Akraness og Grindavíkur.“ Einhverja hluta vegna er Framsýn undanskilið frá þessum stéttarfélögum í yfirlýsingunni um gott samstarf um lausn mála.
Framsýn hefur ekki áhuga á að munnhöggvast frekar við systurfélög í Starfsgreinasambandi Íslands heldur skorar á sambandið að standa vörð um kjör félagsmanna og sækja fram með þeim félögum sem ákveðið hafa að slíta sig frá Starfsgreinasambandinu í yfirstandandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Notum kraftana til góðra verka og sleppum skeitasendingum eins og birtast í yfirlýsingu SGS, þau eru sambandinu ekki til framdráttar. Megi Starfsgreinasambandi Íslands vegna vel í frekari viðræðum við SA og þeim átökum sem stefnir í. Markmiðið er jú að ná fram nýjum kjarasamningi.