Samninganefnd Framsýnar á tánum og bíður átekta

Eins og fram hefur komið á heimasíðu stéttarfélaganna hafa samningaviðræður Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins staðið yfir undanfarnar vikur og mánuði. Frá þeim tíma hefur verið unnið í sérmálum hópa og hafa þær viðræður þokast áfram. Hins vegar stendur allt fast hvað varðar launaliðinn enda ekki vilji innan Samtaka atvinnulífsins að koma til móts við sanngjarnar kröfur verkalýðshreyfingarinnar.

Ágreiningur kom upp innan aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins fyrir áramót um hvort vísa ætti deilunni til Ríkissáttasemjara eða ekki. Framsýn var á þeirri skoðun á þeim tíma að það ætti að vísa deilunni. Svo fór að tvö stéttarfélög innan SGS sögðu skilið við önnur stéttarfélög innan Starfsgreinasambandsins og vísuðu kjaradeilunni til Ríkissáttasemjara, Efling og Verkalýðsfélag Akraness. Nokkru síðar fór Verkalýðsfélag Grindavíkur sömu leið og dróg samningsumboðið til baka frá SGS og vísaði kjaradeilunni til Ríkissáttasemjara.

Fyrir liggur að skoðun samninganefndar Framsýnar hefur verið að þrýsta á atvinnurekendur með því að vísa deilunni til Ríkissáttasemjara og hefur falið formanni félagsins umboð til að gera það telji hann það farsælast með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.

Samninganefnd Framsýnar var í sambandi um helgina þar sem farið var yfir stöðuna og ætlar að hittast aftur næstkomandi mánudag og meta stöðuna upp á nýtt gerist ekkert í þessari viku sem liðkar fyrir viðræðunum.

Ekki er ólíklegt að eitthvað gerist í þessari viku enda líklegt að Samtök atvinnulífsins leggi fram samningstilboð varðandi launaliðinn í vikunni sem aðildarfélög Starfsgreinasambandsins komi til með að þurfa taka afstöðu til. Það sama á við um þau stéttarfélög sem afturkallað hafa samningsumboðið frá SGS. Svo gæti farið að þau slíti viðræðum í vikunni og hefji undirbúning að aðgerðum telji þau tilboð atvinnurekanda ekki boðlegt. Því miður hefur lítið komið frá ríkistjórninni varðandi þeirra tillögur til lausnar kjaradeilunni en fyrir liggur að kjaradeilan verður ekki leyst nema með útspili frá stjórnvöldum. Væntanlega mun átakshópur ríkistjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins sem unnið hafa að hugmyndum um húsnæðismál leggja fram sínar tillögur upp úr næstu helgi.

Meðan þetta ástand varir telur samninganefnd Framsýnar ekki rétt að draga samningsumboðið til baka og vísa deilunni til Ríkissáttasemjara. Hins vegar gæti orðið lítill fyrirvari á því komi til þess að aðstæður breytist til þess verra á næstu dögum.

 

Deila á