Krefjast aðhalds í hækkunum

Með ályktun skorar Framsýn stéttarfélag á ríki og sveitarfélög að halda aftur af hækkunum á opinberum gjöldum s.s. þjónustugjöldum fyrir almenna þjónustu, heilbrigðisþjónustu og sköttum á eldsneyti. Það muni liðka fyrir gerð kjarasamninga.

Ályktun
Um álögur ríkis og sveitarfélaga

Framsýn stéttarfélag skorar á ríki og sveitarfélög að halda aftur af hækkunum á opinberum gjöldum s.s. þjónustugjöldum fyrir almenna þjónustu, heilbrigðisþjónustu og sköttum á eldsneyti. Þá vega gjaldskrárhækkanir eins og hækkanir á fasteignagjöldum almennt þungt í vasa verkafólks sem býr við það hlutskipti að vera á lágmarkslaunum.

Fyrir liggur að kjarasamningar verkafólks á almenna vinnumarkaðinum eru lausir um næstu áramót. Það mun ekki auðvelda gerð kjarasamninga haldi opinberir aðilar ekki að sér höndum varðandi hækkanir á gjaldskrám og sköttum.

Eðlilega eru væntingar almenns launafólks miklar, ekki síst í ljósi ofurhækkana til einstakra hópa s.s. forstjóra, þingmanna og ráðamanna, þeirra sem reglulega vara við launahækkunum til þeirra sem búa við lökust kjörin.

Hvernig geta menn sem vilja láta taka sig alvarlega talað gegn launahækkunum til fólks sem starfar eftir kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands íslenskra verslunarmanna?

Gerir þetta sama fólk sér grein fyrir því að föst mánaðarlaun verkafólks eru á bilinu 266.735 upp í 300.680 krónur svo vitnað sé í launatöflu Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins?

Það er alveg ljóst að i þeim kjaraviðræðum sem framundan eru mun íslenskt verkafólk fremur velja harða kjarabaráttu og jafnvel vinnustöðvanir en að þiggja að hámarki 4% launahækkun í þriggja ára samningi, eins og Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir.

Skömmin er mikil hjá þeim sem hugsa sér að skammta slíkar hækkanir eins og skít úr hnefa til þess fjölmenna hóps sem vinnur myrkranna á milli að því að skapa gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Verkafólk á Íslandi er eldsneytið í þeirri vél er heldur samfélaginu gangandi. Það kallar eftir sanngirni og jöfnuði í þjóðfélaginu og mun ekki láta auðvaldið knýja sig til áframhaldandi fátæktar.

Deila á