Hvetja til samstöðu með VR í komandi kjaraviðræðum við SA

Framsýn stóð fyrir tveimur fundum um kjaramál í gær. Annars vegar var fundur haldinn á íslensku og hins vegar á ensku. Þetta skipulag var viðhaft til að gefa sem flestum kost á að hafa áhrif á kröfugerð Framsýnar og stefnu félagsins varðandi samstarf við önnur stéttarfélög og landssambönd í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Greinilegt var á fundunum að menn leggja mikið upp úr góðu samstarfi við VR og Eflingu enda öflugustu stéttarfélögin innan Alþýðusambands Íslands hvað stærð varðar. Eftir góðar og málefnalegar umræður samþykkti fundurinn að senda frá sér svohljóðandi ályktun:

„Félagsfundur Framsýnar stéttarfélags, haldinn 18. september 2018, samþykkir að fela stjórn félagsins að leita allra leiða til að sameina aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Samstaðan er forsendan fyrir árangri. 

Fram að þessu hefur sambandið verið klofið þegar komið hefur að gerð kjarasamninga á almenna vinnumarkaðinum. Stéttarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa farið fram undir merkjum Flóabandalagsins meðan önnur stéttarfélög innan sambandsins, svo kölluð landsbyggðarfélög, hafa unnið saman í kjaraviðræðum. 

Framsýn stéttarfélag hefur lengi haldið því fram að klofningurinn hafið komið niður á baráttu verkafólks fyrir bættum kjörum. Láglaunafólk hefur miklar væntingar til næstu kjarasamninga og því er afar mikilvægt að aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands myndi breiðfylkingu til sóknar í kjara- og réttindabaráttu félagsmanna.  

Þá hvetur Framsýn stéttarfélag til samstarfs við VR og Landssambands íslenskra verslunarmanna til að ná þessum markmiðum fram. Takist að sameina slagkraft Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands íslenskra verslunarmanna gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum er það vænlegast til árangurs í þeirri mikilvægu kjarabaráttu sem framundan er.“

(málverk með frétt, Ingvar Þorvaldsson)

 

Deila á