Jökull Gunnarsson hefur verið ráðinn forstjóri kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka. Hafsteinn Viktorsson lætur af störfum sem forstjóri en sinnir áfram verkefnum fyrir félagið.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Jökull hefur starfað sem framleiðslustjóri PCC frá 2016. Hafsteinn hefur á sama tíma verið forstjóri og leitt byggingu og gangsetningu kísilverksmiðjunnar. Í fréttatilkynningunni kemur fram að Hafsteinn starfi áfram fyrir félagið, einkum að verkefnum sem lúta að mögulegri stækkun verksmiðjunnar.
Fyrri ofn verksmiðjunnar var gangsettur 30. apríl og framleiðir nú á fullum afköstum, þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Seinni ofninn var gangsettur um síðustu mánaðarmót.