Áætlað er að 212.900 manns á aldrinum 16–74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í júlí 2018, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands, en það jafngildir 84,3% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 207.600 starfandi og 5.300 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 82,2% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 2,5%.
Samanburður mælinga fyrir júlí 2017 og 2018 sýnir að vinnuaflið jókst um 11.300 manns en hlutfall þess af mannfjölda hækkaði um 0,7 prósentustig. Fjöldi starfandi jókst um 8.100 manns en þrátt fyrir það þá lækkaði hlutfall þeirra af mannfjölda um 0,6 prósentustig.
Atvinnulausir í júlí 2018 mældust 3.200 fleiri en í sama máuði árið 2017. Hér ber að taka fram að í júlí 2017 voru óvenju fáir án atvinnu og í atvinnuleit samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar, eða 2.100 manns. Alls voru 39.700 utan vinnumarkaðar í júlí 2018 og stendur fjöldinn nánast í stað frá því í júlí 2017 þegar þeir voru 39.500.
Lesa má nánar um framkvæmd og aðferð rannsóknarinnar á vef Hagstofunnar.