Samkvæmt kjarasamningum og lögum skal launafólk fá einn frídag á viku í beinu framhaldi af daglegri lágmarkshvíld, þ.e. 35 klst. samfelld hvíld einu sinni í viku. Engin sérstök ákvæði eru í kjarasamningum eða lögum um hvernig við skuli brugðist ef þessi ákvæði eru ekki virt, ef frá eru talin sektarákvæði. Hæstiréttur staðfesti þann 14.6 sl. með dómi í máli nr. 594/2017 að atvinnurekendur bera ábyrgð á því að vinna sé skipulögð þannig að vikulegur frídagur sé virtur. Hæstiréttur segir jafnframt að enda þótt ekki sé gert ráð fyrir að umræddir frídagar séu launaðir sé ljóst að atvinnurekendur beri ábyrgð á að starfsmenn fái þá lágmarkshvíld sem í kjarasamningum greinir og ef atvinnurekendur fari ekki að kjarasamningum að þessu leyti eignist starfsmenn rétt til dagvinnulauna vegna þeirra vikulegu frídaga sem þeir ekki fá.
Ekki hefur verið fjallað um það fyrir dómi hvort frávik frá reglunni um 48 stunda vinnuviku að jafnaði skapi sambærilegan rétt en með sömu rökum og beitt var í Hrd. 594/2017 kann vel að vera að svo sé enda skylda atvinnurekanda jafn mikil í þessu efni eins og varðar vikulega og daglega hvíld.