Heiðrað fyrir björgunarstörf á sjómannadeginum á Húsavík

Hátíðarhöldin vegna Sjómannadagsins hafa farið vel fram á Húsavík um helgina. Í dag var  komið að heiðrun í tilefni dagsins. Heiðrunin fór fram í Miðhvammi þar sem Slysavarnardeild kvenna stóð fyrir kaffihlaðboði.Töluverður hópur fólks lagði leið sína í kaffið en slysavarnarkonur eru þekktar fyrir sín glæsilegu hlaðborð. Í ár var ákveðið að heiðra Björgunarsveitina Garðar og Vilhjálm Pálsson sem lengi hefur komið að björgunarmálum á svæðinu fyrir þeirra mikilvæga starf í þágu samfélagsins, ekki síst sjómanna. Það var Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags sem flutti eftirfarandi ávarp til heiðurs Vilhjálmi og Björgunarsveitinni Garðari. Auk hans kom Heiðar Valur Hafliðson varaformaður Sjómannadeildar Framsýnar að heiðruninni.  Þá má geta þess að Framsýn færði Slysavarnardeild kvenna kr. 100.000,- að gjöf við þetta tækifæri.

Ágætu tilheyrendur!

Ég vil í upphafi óska hetjum hafsins, sjómönnum og fjölskyldum þeirra um land allt til hamingju með daginn. Reyndar er full ástæða til að óska öllum til hamingju með daginn enda sterkar rætur tengdar sjómennsku hjá okkur öllum og því sem hafið hefur gefið af sér um dagana.

Þekkt er þegar virtur bóksali hér í bæ sagði bein tengsl vera milli viðskipta í versluninni og þess hvernig fiskaðist á hverjum tíma. Fólk hefði meira á milli handanna sem skilaði sér í betri verslun og þar með velmegun í samfélaginu við Skjálfanda.

Þrátt fyrir að miklar breytingar hafi orðið á Húsavík með fækkun útgerða og þar með báta, skipar sjávarútvegur ákveðinn sess í okkar samfélagi. Sjávarútvegur og landbúnaður hafa fylgt okkur lengi og verið sterkustu stoðirnar í þingeysku atvinnulífi í gegnum söguna. Aukin ferðaþjónusta og nýr iðnaður á Bakka koma til með að styðja samfélagið enn frekar.

Eins og kunnugt er hefur þeirri merkilegu hefð verið viðhaldið á sjómannadaginn víða um land að heiðra sjómenn og þá sem tengjast sjómennsku. Það er sjómenn og aðra þá sem þótt hafa skarað fram úr og skilað góðu og farsælu starfi, fjölskyldum þeirra og þjóðinni allri til heilla. Í dag ber svo við að við ætlum að heiðra Vilhjálm Pálsson og Björgunarsveitina Garðar fyrir þeirra fórnfúsa starf til að tryggja öryggi sjófarenda.

Þannig er að Sjómannadeild Framsýnar hefur séð um heiðrunina á sjómannadaginn frá árinu 2010 þegar leitað var til deildarinnar um að taka við þessum viðburði og sjá um þessa hlið hátíðardags sjómanna á Húsavík. Frá þeim tíma hefur stjórn deildarinnar komið saman og valið þá sem heiðraðir skyldu á hverjum tíma. Aldrei hefur verið reynt að hafa áhrif á það hvaða sjómenn væru heiðraðir. Hins vegar er afar ánægjulegt að segja frá því að í gegnum tíðina hefur reglulega verið haft samband við okkur úr nær umhverfinu og spurt hvort ekki væri komið að því að heiðra Björgunarsveitina Garðar fyrir björgunarafrek, ekki síst sjóbjarganir. Þar hafa verið fremstar í flokki eiginkonur sjómanna sem hafa talið sig vera öruggari vitandi af öflugri björgunarsveit, það er sveit manna sem ávallt væri tilbúin að bregðast við óvissuástandi eins og dæmin sanna.

Ekki síst vegna þessara sterku skilaboða hefur verið ákveðið að heiðra Björgunarsveitina Garðar fyrir frábært starf í þágu samfélagsins er tengist því að auka öryggi sjófarenda. Hlutverk sveitarinnar eru almenn slysavarna- hjálpar- og björgunarstörf.

Maðurinn sem lengi fór fyrir björgunarsveitinni, Vilhjálmur Pálsson, verður jafnframt heiðraður fyrir framgöngu sína við stofnun sveitarinnar en hún var stofnuð 17. nóvember 1959. Reyndar segir sagan að þá hafi komið saman 18 menn á Húsavík til að stofna með sér félagskap um björgun. Tveimur árum síðar hafi deildin verið stofnuð formlega.

Ákveðin skýring var á því að ákveðið var að stofna björgunarsveit á þessum tíma. Nokkrum vikum áður eða 21. október 1959 varð hörmulegt sjóslys þegar vélbáturinn Maí TH 194 frá Húsavík fórst í línuróðri við Mánareyjar og með honum tveir ungir og vaskir sjómenn sem létu eftir sig eiginkonur og börn á unga aldri. Nöfn þeirra voru Kristján Stefán Jónsson og Aðalsteinn Árni Baldursson hálfbróðir þess sem hér stendur. Sjóslysið var ákall um að stofnuð yrði björgunarsveit til að bregðast við aðstæðum sem þessum.

Þá er athyglisvert að skoða umræðuna á Alþingi Íslendinga á þessum tíma þegar Björn Jónsson alþingismaður gerir að umræðuefni öryggi og tryggingavernd sjómanna sem farast með þessum hætti og falla undir almannatryggingar. Hann kallar eftir breytingum á þáverandi lögum þar sem ekki þurfti að lögskrá á báta innan við 12 tonn á þessum tíma. Sjómenn á smábátum bjuggu við töluvert lakari tryggingavernd en aðrir sjómenn á stærri bátum en Vélbátnum Maí TH sem var 8 tonn. Í ræðu Björns Jónssonar frá 30. mars 1960 kemur m.a. fram:

„Ég veit, að það stríðir þvert á móti réttlætisvitund allra Íslendinga, að konur og börn skipverjanna af Maí og annarra, sem eins var ástatt um, gjaldi þess fjárhagslega, að farkosturinn, sem hinir látnu sigldu á í hina hinztu för, var einni eða tveimur lestum minni en svo, að heimilt væri að lögskrá á hann og tryggja þannig skipverja á sama hátt og sjómenn af stærri skipum, og sama gildir að sjálfsögðu um önnur hliðstæð tilvik.“ Tilvitnun lýkur.

Eins og heyra má lagði Björn mikla áherslu á að tekið yrði á tryggingamálum sjómanna. Síðar tókst að jafna tryggingavernd sjómanna, burt séð frá stærð skipa. Það að Björn skyldi vekja athygli á þessum misbresti í almannatryggingum eftir sjóslysið við Mánareyjar 1959 skilaði ekki síst þessum mikilvæga árangri í réttindabaráttu sjómanna og fjölskyldna þeirra.

Ágæta samkoma:

Eins og fram hefur komið hefur verið ákveðið að heiðra Björgunarsveitina Garðar og fyrrverandi formann sveitarinnar og eins af stofnendum hennar Vilhjálm Pálsson fyrir störf þeirra í þágu sjómanna og samfélagsins í heild.

Það þarf að minna okkur Íslendinga reglulega á það, hversu öflugt og fórnfúst starf björgunarsveitarfólk leggur á sig þegar neyðarkallið kemur. Það veit enginn hver er næstur í neyð.

Allt frá stofnun björgunarsveitarinnar hefur hún gengt veigamiklu hlutverki í okkar samfélagi. Alla daga ársins, nótt sem dag, hafa sjálfboðaliðar á vegum sveitarinnar verið tilbúnir að bregðast við öllum hugsanlegum aðstæðum. Kringumstæðum sem oft á tíðum eru stór hættulegar.

Reglulega heyrum við í fréttum frásagnir frá björgunaraðgerðum. Vélarvana fiskibátur á Skjálfanda, hvalaskoðunarbátar í vandræðum, rúta föst í Jökulsá, fjárskaði á Reykjaheiði, hópbifreiðaslys og ofsaveður á Norðurlandi. Allt eru þetta krefjandi aðstæður og oftar en ekki eru þar sjálfboðaliðar á vegum Björgunarsveitarinnar Garðars við störf.

Hvað björgunarstörf varðar eru enginn landamæri. Björgunarsveitarfólk á Húsavík er ávallt reiðubúið að sinna krefjandi björgunarstörfum á og við Ísland. Sveitin hefur í gegnum tíðina tekið þátt í fjölda verkefna bæði til lands og sjós í öllum landshlutum. Oft þegar um stærri útköll er að ræða á landsvísu er leitað til allra sveita innan Landsbjargar sem hefur innan sinna raða þúsundir sjálfboðaliða. Björgunarsveitarfólk á Húsavík hefur ekki látið sitt eftir liggja þegar útköll hafa komið varðandi slík verkefni. Björgunarsveitinn er í dag ágætlega búin tækjum, heldur úti öflugu starfi í gegnum ungliðadeildina Náttfara auk þess að byggja starfsemi sína á sjálfboðaliðum. Í starfi sem þessu vantar alltaf sjálfboðaliða, rétt er að skora á fólk, konur og karla, að stiga fram og taka þátt í gefandi starfi sveitarinnar á Húsavík. Það er alltaf vöntun á öflugu og góðu fólki til starfa fyrir Björgunarsveitinna Garðar.

Það er ekki hægt að fara í gegnum sögu sveitarinnar nema minnast aðeins á stand Hvassafells við Flatey á Skjálfanda þann 7. mars 1975. Þennan dag var ofsaveður, norðaustan stormur, líklega um 9 vindstig, haugasjór og blindhríð. Um borð voru 19 manns, þar af þrjár konur. Ein þeirra var barnshafandi, komin sex mánuði á leið. Þar vann Björgunarsveitinn Garðar mikið björgunarafrek við mjög erfiðar aðstæður. Þetta frækna björgunarafrek hefur líklega aldrei fengið eins mikla athygli og það á sannarlega skilið, kannski vegna þess að það gekk afar vel þrátt fyrir stórhættulegar aðstæður. Enginn slasaðist við sjálfa björgunina á fólki og öllum var komið í höfn á Húsavík án áfalla. Ekki síst vegna þessa mikla björgunarafreks er það mat manna að full ástæða sé til að heiðra Björgunarsveitina Garðar. Áður höfum við heiðrað skipstjórana tvo, sem stundum hafa verið kallaðir meistarar brotsjóanna, því kjark þurfti og þor til að leggjast við hafnarkantinn í Flatey í ofsaveðri. Það voru þeir Pétur Olgeirsson og Ingvar Hólmgeirsson sem fluttu björgunarsveitina og búnað hennar út í Flatey. Það er alveg ljóst að menn lögðu sig í mikla hættu, eins og svo oft er raunin, þegar unnið er við björgunarstörf.

Sjóbjörgunarafreksins við Flatey verður lengi minnst enda góður minnisvarði um mikilvægi björgunarsveita hringinn í gegnum landið. Björgunin er einstök í sjóbjörgunarsögu SVFÍ, að því leyti að fara þurfti 15 sjómílna leið í foráttuverði og koma búnaði og mönnum í land við mjög ótryggar aðstæður. Höfum í huga að það þarf ekki að fara lengra en aftur til ársins 1959, þegar ekki var til formleg sveit manna til að bregðast við sjóslysum við Skjálfanda. Nú er öldin önnur, þökk sé þeim mönnum sem stigu fram og stofnuðu björgunarsveit á Húsavík sem og annars staðar á Íslandi.

Upp í hugann kemur Vilhjálmur Pálsson og sá frábæri hópur sem stofnaði Björgunarsveitina Garðar hér á Húsavík. Vilhjálmur Pálsson er fæddur 30. maí 1929 í Vetrarbraut á Húsavík og fagnar því 89 ára afmæli sínu um þessar mundir, nýbúinn að fá sér tattoo eins og aðrir unglingar. Hann er sonur hjónanna Páls Sigurjónssonar og Karólínu Sigurgeirsdóttur. Faðir Vilhjálms stundaði sjómennsku og var auk þess fiskmatsmaður. Móðir hans stundaði lengst af störf hjá Kaupfélagi Þingeyinga við þvotta.

Villi, eins og hann er oftast kallaður útskrifaðist frá Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni 1950. Þar kynnist hann konuefninu sínu, Védísi Bjarnadóttur og saman eiga þau þrjú uppkominn börn. Fyrir utan námsárin á Laugavatni og viðkomu við kennslustörf í Lauganesskóla um 1950, hefur Villi búið nánast alla sína tíð á Húsavík. Vilhjálmur var góður íþróttamaður og stundaði blak, frjálsar, körfubolta, fótbolta og handbolta. Að sögn Vilhjálms var hann tilnefndur til þátttöku í landsliðinu í frjálsum íþróttum, en orðið að gefa það frá sér. Hann keppti því aldrei fyrir Ísland. Villi er ekki ólíkur fýlnum, það er að segja fuglinum fýlnum, þar sem hann hefur í gegnum tíðina þurft að sjá sjóinn til að ná sér almennilega á flug enda byrjaði hann ungur að stunda sjóinn samhliða kennslu og námi.

Árið 1954 réð hann sig hjá Þórhalli Karlssyni skipstjóra og útgerðarmanni á Smára TH 59. Báturinn var gerður út á síld og vetrarvertíð. Eftir tveggja ára veru með Þórhalli skipti Villi um pláss og fór eitt ár á Stefán Þór ÞH með Tryggva Brynjólfssyni á síld og síðar á vetrarvertíð á sama bát með Maríusi Héðinssyni. Bátarnir voru gerðir út frá Húsavík og Suðurnesjunum. Um 1960 kaupir Villi trillu með Karli H. Hannessyni sem þeir nefndu Orra ÞH 16. Félagarnir stunduðu sjómennsku á sumrin á þessum tíma með annarri vinnu. Síðar átti Villi eftir að eignast aðrar trillur, það er Héðinn ÞH 176 og Pál ÞH 57. Þann bát eignaðist hann með dóttur sinni Önnu Karolínu og Brynjari Sigtryggssyni árið 1990 sem þau áttu í nokkur ár.

Eins og sjá má á þessu innskoti hefur Vilhjálmur Pálsson lengi verið viðloðandi sjóinn en hann var með 30 tonna réttindi, sem sjómaður og björgunarsveitarmaður. Þingeyskir sjómenn eiga Vilhjálmi Pálssyni mikið að þakka. Hann var hvatamaður af því að kennsla í sjóvinnu væri tekin upp á Húsavík og yrði valfag í Gagnfræðaskóla Húsavíkur þar sem hann var kennari.

Um 1976 bauð Menntamálaráðuneytið upp á námskeið í sjóvinnu til að auka tengsl skóla við atvinnulífið. Námið var tekið upp á Húsavík og fór kennslan fram í níunda og tíunda bekk. Verklega námið fór fram fyrra árið og bóklega námið síðara árið. Kennslan fór fram í Gagnfræðaskólanum og í verbúð niður við höfn. Þá var farið í róðra og fiskað. Leitað var til Bessa Guðlaugssonar til að fara með nemendur á sjó enda þótti hann bæði gætinn og góður sjómaður. Síðar fór Menntamálaráðuneytið að senda skólaskip um landið þar sem komið var við í höfnum og nemendum kennt handtökin um borð sem var hluti af náminu. Sjóvinna var kennt hér á Húsavík í um 15 ár. Nemendur sem luku prófi útskrifuðust með 30 tonna réttindi en drengir og stúlkur sem útskrifuðust þurftu auk þess að hafa náð 18 ára aldri. Villi var ekki eingöngu viðloðandi þetta nám á unglingastiginu heldur leituðu skipstjórar hér í bæ til hans þegar reglum var breytt upp úr 1980 og réttindaskyldan kom inn. Þá fengu skipstjórar ekki lengur leyfi til að stýra bátum upp að 200 tonnum nema hafa til þess tilskilin réttindi. Á þeim tíma áttu menn ekki auðvelt með að fara suður til Reykjavíkur í Stýrimannaskóla Íslands. Eftir mikla vinnu tókst Villa að sannfæra stjórnendur skólans og Menntamálaráðuneytið um að hægt væri að kenna námið á Húsavík. Gekk hann í að ráða hæfa kennara auk þess að halda utan um námið sem heppnaðist vel. Í heildina hefur Vilhjálmur Pálsson komið að því að úrskrifa um 500 til 600 sjómenn með ákveðinn skipstjórnarréttindi. Hann hætti afskiptum sínum af þessum málum um 1990.

Ég hef á undanförum árum tekið viðtöl við flesta skipstjóra sem róið hafa frá Húsavík vegna heiðrana á Sjómannadaginn. Ég hef fundið fyrir miklu þakklæti í garð Villa með hans frumkvæði á sínum tíma að halda úti þessu námi í góðu samstarfi við menntastofnanir og þá sem komu að námskeiðahaldinu. Það hafi skipt verulega miklu máli og tryggt þessa mikilvægu menntun í heimabyggð.

Eins og komið hefur verið inn á þessu ávarpi eru bein tengsl milli Vilhjálms Pálssonar og Björgunarsveitarinnar Garðars. Vilhjálmur minnist þess þegar menn vöknuðu upp við vondan draum haustið 1959 þegar vélbáturinn Maí TH fórst. Í kjölfarið hafði Jóhanna Aðalsteinsdóttir formaður Slysavarnadeildar kvenna á Húsavík samband við hann og taldi mikilvægt að fluglínutæki sem var til staðar á Húsavík en ekki í umsjón neins ákveðins aðila, yrði virkjað þannig að fleiri kynnu að fara með það svo hægara væri að grípa til þess kæmi til frekari sjóskaða. Villi tók þessu mjög alvarlega og hóf þegar í stað vinnu við að mynda björgunarsveit sem endaði með því að hún var stofnuð af hópi manna hér í bæ. Strax var hafist handa við að safna nauðsynlegum búnaði fyrir sveitina s.s. ýmsum tækjum, ennisljósum og talstöðvum. Á stofnfundinum var Villi kosinn formaður og gegndi hann því starfi í 22 ár ásamt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum sem tengdust björgunarstörfum. Hann var t.d. umdæmisstjóri björgunarsveita á Norðurlandi til margra ára.

Reyndar er Villi mikið ólíkindatól. Hann var kennari til fjölda ára, formaður Völsungs, hann var þjálfari góður og íþróttamaður, hann var sjúkrabílstjóri, hann var formaður í björgunarsveit og fór fyrir björgunarafrekinu í Flatey.

Þá má geta þess að hér á árum áður riðu hestamenn í Grana fyrir skrúðgöngu á 17. júní hér í bæ og þar var Villi að sjálfsögðu ævinlega mættur á reistum hesti. Fleira mæti nefna en þá yrði þetta ávarp allt of langt. Já, Villi hefur verið einstaklega áberandi í húsvísku samfélagi og skilað góðu verki.

Að lokum vil ég skora á alla að standa vel við bakið á Björgunarsveitinni Garðari hér eftir sem hingað til, við þurfum á þeim að halda og sveitin þarf á stuðningi okkur að halda. Höfum í huga að björgunarsveitin verður aldrei öflugri en baklandið, það þarf fjármagn til sveitarinnar þar sem tækjabúnaður hennar á hverjum tíma endurspeglast af áhuga samfélagsins á starfi deildarinnar.

Að þessu sögðu vil ég biðja Vilhjálm Pálsson og Védísi að koma hér upp ásamt núverandi formanni björgunarsveitarinnar Garðars, Birgi Mikaelssyni, Guðmundi Salómonssyni og Fanneyju Óskarsdóttur og veita viðtöku heiðursorðu sem þakklætisvott fyrir ykkar framúrskarandi starf í gegnum tíðina í þágu okkar í landnámi Garðars. Gjörið svo vel og komið hér upp.

Þóra Björg Sigurðardóttir tók við penningagjöf frá Framsýn til styrktar Slysavarnardeild kvenna á Húsavík kr. 100.000,-. Hún þakkaði kærlega fyrir stuðninginn. 

Höfðingjarnir Trausti Friðfinsson og Guðlaugur Bessason voru á svæðinu og heilsuðu upp á Vilhjálm Pálsson. Þeir eru brottflutir en eru staddir á Húsavík um þessar mundir. Trausti og Guðlaugur voru lengi til sjós.

Það var vel við hæfi að gestir í kaffihlaðborði Slysavarnardeildar kvenna stæðu upp og heiðruðu Vilhjálm og Björgunarsveitinna fyrir þeirra störf í þágu almennings í Þingeyjarsýslum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila á