Molar frá aðalfundi – félagsmenn duglegir við að sækja sér menntun

Framsýn er mjög umhugað um starfsmenntun félagsmanna. Á árinu 2017 fengu 313 félagsmenn greiddar kr. 12.584.237,- í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum í endurgreiðslur vegna náms eða námskeiða. Sambærileg tala fyrir árið 2016 var kr. 11.548.910,-.

Námsstyrkir árið 2017 skiptast þannig milli sjóða:

226 félagsmenn fengu greidda styrki úr Landsmennt  kr. 8.798.818,-.

8 félagsmenn fengu greidda styrki úr Sjómennt         kr.   500.041,-.

11 félagsmenn fengu greidda styrki úr Ríkismennt    kr.   469.072,-.

25 félagsmenn fengu greidda styrki úr Fræðslusjóði verslunar og skrifstofufólks  kr. 1.142.506,-.

43 félagsmenn fengu greidda styrki úr Sveitamennt   kr. 1.673.800,-.

Að auki fengu fjórir félagsmenn styrki úr Fræðslusjóði Framsýnar kr. 189.000,-.

Samtals fengu félagsmenn því greiddar 12.773.237,- í námsstyrki á árinu 2017, það er með styrkjum úr Fræðslusjóði Framsýnar.

Starfsmennastyrkir til félagsmanna í Framsýn hækkuðu um áramótin og verða allt að 100 þúsund krónur á ári eða 75% af kostnaði við námið. Ónotaður réttur til þriggja ára verður kr. 300 þúsund hjá almennum félagsmönnum innan félagsins. Rétturinn er aðeins hærri hjá verslunar- og skrifstofufólki. Þessir góðu styrkir koma í gegnum þá fræðslusjóði sem Framsýn á aðild að samkvæmt ákvæðum kjarasamninga.

Fræðslusjóðirnir eru fjármagnaðir með framlögum frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisstofnunum sbr. ákvæði þar um. Það á þó ekki við um Fræðslusjóð Framsýnar sem hefur ekki fastan tekjustofn.

Þá má geta þess að félagið leggur mikið upp úr heimsóknum í skóla með fræðslu um starfsemi stéttarfélaga og vinnumarkaðinn, það er í vinnuskóla, grunnskóla og framhaldskóla á félagssvæðinu.

Dæmi eru um að fyrirtæki og stofnanir leiti til Framsýnar með beiðni um fræðslu fyrir starfsmenn sem tengist réttindum og skyldum þeirra á vinnumarkaði sem er afar ánægjulegt.

 

 

Deila á