Molar frá aðalfundi – rúmlega 70 milljónir greiddar í atvinnuleysisbætur með mótframlagi á árinu 2017

Atvinnuástandið á félagssvæði Framsýnar hefur verið með miklum ágætum og því hefur lítið verið um atvinnuleysi.

Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni fengu 137 félagsmenn Framsýnar greiddar atvinnuleysisbætur á árinu 2017 samtals kr. 82.952.573,-. Með mótframlagi kr. 6.636.206,- námu heildargreiðslur alls kr. 89.588.779,-.

Sambærilegar tölur fyrir árið 2016 eru eftirfarandi. Alls fengu 109 félagsmenn Framsýnar greiddar atvinnuleysisbætur á árinu 2016 samtals kr. 66.648.792,-. Með mótframlagi kr. 5.331.903,- námu heildargreiðslur alls kr. 71.980.695,-.

Eins og kunnugt er hafa staðið yfir miklar framkvæmdir á félagssvæði Framsýnar. Fjöldi innlendra og erlendra verktaka hafa verið á svæðinu auk fjölda verkamanna, iðnaðarmanna og sérfræðinga. Það er því óhætt að segja að atvinnulífið iði um þessar mundir.

Framsýn hefur kappkostað að eiga gott samstarf við atvinnurekendur á svæðinu, ekki síst verktaka, sem koma að framkvæmdunum.

Kjölfestan í atvinnumálum í Þingeyjarsýslum hefur lengi verið sjávarútvegur og landbúnaður. Ekki er annað að sjá en að þessar greinar komi til með að halda velli og eflast á komandi árum þrátt fyrir að nokkuð sé sótt að þessum atvinnugreinum.

Rétt er að geta þess að ferðaþjónustan hefur verið að eflist ár frá ári. Menn hafa verið stórhuga í Þingeyjarsýslum og byggt m.a. upp hótel og aðra þjónustu við ferðamenn. Í því sambandi má nefna Sjóböðin á Húsavíkurhöfða sem líkt og Jarðböðin í Mývatnssveit eiga án efa eftir að draga til sín fjölmarga gesti.

Um þessar mundir er PCC BakkiSilicon hf. að hefja starfsemi á Bakka. Væntanlega verður um að ræða öfluga atvinnugrein í iðnaði. Þá eru bundnar vonir við að með tilkomu Vaðlaheiðargangna muni atvinnusvæðið á Norðurlandi styrkjast enn frekar.

 

 

Deila á