Molar frá aðalfundi- félagsmenn á ferð og flugi í boði Framsýnar

Í gegnum tíðina hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið.

Framsýn stéttarfélag á tvö orlofshús, á Illugastöðum og í Dranghólaskógi og þrjár íbúðir í Kópavogi og eina í Reykjavík. Í haust bætist væntanlega fjórða íbúðin í Þorrasölum við enda gangi kauptilboð félagsins í íbúð 204 eftir.

Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félagsins. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 50.000 fyrir viku dvöl.

Þá fengu 69 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 1.093.487,-.

Sumarferð stéttarfélaganna 2017 var farin í Borgarfjörð eystri helgina 20. – 21. ágúst 2017. Tæplega 20 manns tóku þátt í ferðinni sem tókst í alla staða mjög vel. Ósk Helgadóttir sá um fararstjórn og leiðsögn og stóð sig með mikilli prýði eins og henni er von og vísa. Í sumar er slík ferð fyrirhuguð í Mývatnssveit, það er gönguferð um fallega staði í sveitinni fögru.

Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna eru með leigusamning um afnot á orlofshúsi á Spáni. Nokkuð hefur verið um að félagsmenn hafi notfært sér þennan orlofskost. Framsýn ber ekki kostnað af orlofshúsinu heldur niðurgreiðir dvöl félagsmanna.

Félagsmönnum stéttarfélaganna stendur til boða að kaupa miða í Hvalfjarðargöngin, gistimiða og ódýr flugfargjöld sem skiptast þannig fyrir árið 2017:

Seldir flugmiðar       4.470            Sparnaður fyrir félagsmenn               kr. 49.617.000,-  Seldir miðar í göng   3.027           Sparnaður fyrir félagsmenn               kr.   1.059.450,-    Seldir gistimiðar         739           Sparnaður fyrir félagsmenn               kr.   1.625.800,-

Samtals sparnaður fyrir félagsmenn                kr. 52.302.250,-

Þess má geta að stéttarfélögin hafa nú tekið upp nýtt orlofskerfi sem ætlað er að auðvelda félagsmönnum að panta flug og fleira í gegnum netið.

 

 

Deila á