Hafið öll kærar þakkir fyrir ykkar óeigingjarna starf, þið eruð öll frábær sem og félagsmenn Framsýnar. Án ykkar væri Framsýn ekki eitt öflugasta stéttarfélag landsins.

Formaður Framsýnar, kom víða við í ávarpi sínu í á aðalfundi félagsins í gær, hér má lesa boðskapinn:

Ágætu félagar, velkomin á aðalfund Framsýnar stéttarfélags

 Megintilgangur Framsýnar stéttarfélags er að vinna að hagsmunamálum launþega á starfssvæðinu, með því að semja um kaup og kjör, standa vörð um hagsmuni og réttindi þeirra og vinna að hverskonar fræðslu- og menningarstarfsemi á félagssvæðinu.

Samkvæmt lögum Framsýnar ber að halda aðalfund félagsins á hverju ári, það er fyrir lok maímánaðar ár hvert. Dagskráin skal vera samkvæmt lögum félagsins.

Gerð er krafa um að stjórn og trúnaðarráð félagsins leggi fram skýrslu um störf félagsins á umliðnu starfsári og ársreikninga.

Til að uppfylla þessar kröfur hafið þið fyrir framan ykkur ítarlega ársskýrslu Framsýnar auk ársreikninga félagsins og Hrunabúðar sf. sem hér eru til kynningar en ekki afgreiðslu.

Ég skora á fundarmenn að kynna sér fundargögnin.

Ætlun mín er að gera stuttlega grein fyrir starfsemi félagsins. Huld Aðalbjarnardóttir mun síðar á fundinum fara yfir ársreikninga félagsins og Hrunabúðar sf. sem er félag í eigu Framsýnar og Þingiðnar og varðar rekstur á efri hæðinni að Garðarsbraut 26. Í skýrslunni er einnig gerð grein fyrir starfsemi Virk, starfsendurhæfingar.

Þegar horft er til starfsemi félagsins á umliðnu starfsári má sjá að starfið hefur aldrei í sögunni verið eins öflugt og um þessar mundir. Alls greiddu 3.514 einstaklingar til Framsýnar stéttarfélags á árinu 2017, en greiðandi félagar voru 2.920 árið 2016. Greiðandi félagsmönnum fjölgaði verulega milli ára eða um tæplega 600 og hafa þeir aldrei verið fleiri en um þessar mundir. Af þeim sem greiddu til Framsýnar á síðasta ári voru 2.151 karl og 1.363 konur sem skiptast þannig, konur eru 39% og karlar 61% af félaginu. Skýringin liggur fyrir, breytingarnar eru tilkomnar vegna verklegra framkvæmda á svæðinu og því hefur karlastörfum fjölgað umtalsvert umfram hefðbundin kvennastörf.

Með gjaldfrjálsum félagsmönnum sem eru 302 voru félagsmenn í árslok 2017 samtals 3.687. Hlutfallslega starfa flestir félagsmenn við ferðaþjónustu.

Það er athyglisvert að erlendum félagsmönnum innan Framsýnar hefur fjölgað verulega á síðustu 20 árum. Um þessar mundir koma tæplega 40% félagsmanna frá 38 þjóðlöndum fyrir utan Ísland.

Þá má geta þess að 482 launagreiðendur greiddu til Framsýnar á síðasta ári og fjölgaði þeim um 13 milli ára. Verktakafyrirtækin Beck&Pollitzer og Munck Íslandi ehf. greiddu mest til félagsins á árinu 2017. Beck&Pollitzer greiddi þó mest eða um 20 milljónir, innifalið í upphæðinni eru félagsgjöld starfsmanna.

Eins og sjá má í ársreikningum Framsýnar vegna ársins 2017 er fjárhagsleg afkoma félagsins með miklum ágætum. En höfum í huga að eitt strangt og langt verkfall gæti komið sér afar illa fyrir félagið, það er fjárhagslega.  Rekstrartekjur félagsins námu kr. 265.648.270,- sem er aukning um 21,9% milli ára og varð rekstrarafgangur af öllum sjóðum félagsins. Rekstrargjöld námu 185.455.936,- sem er aukning um 21,37% milli ára. Þessi hækkun er ekki síst tilkomin vegna hækkunar bóta og styrkja úr sjúkrasjóði og vinnudeilusjóði auk hlutdeildar í kostnaði við Hrunabúð og hærri skatta frá samböndum.

Í árslok 2017 var tekjuafgangur Framsýnar kr. 128.532.122,- en var kr. 112.922.283,- árið 2016.  Þá námu heildareignir félagsins kr. 1.895.352.623,- í árslok 2017 samanborið við kr. 1.771.721.280,- í árslok 2016.

Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. 

Á árinu 2017 voru greiddir um 1000 styrkir til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins. Samtals námu greiðslur vegna sjúkradagpeninga, annarra bóta og styrkja kr. 57.309.735,-. Sama upphæð fyrir árið á undan var kr. 46.108.635,-.

Samkvæmt niðurstöðunni varð veruleg hækkun milli ára á styrkjum úr sjúkrasjóði eða um 24,3%. Við aðstæður eins og þessar er mikilvægt að félagið hafi burði til að mæta auknum útgjöldum, stundum óvæntum. Aðhald í rekstri Framsýnar til fjölda ára er lykillinn að því að félagið getur mætt aðstæðum sem þessum. Það á hins vegar ekki við um öll stéttarfélög í landinu eins og nýlegar fréttir bera með sér.

Að venju hafa kjaramálin verið fyrirferðarmikil í starfi félagsins. Gengið var frá stofnanasamningum við ríkisstofnanir á svæðinu, það er við framhaldsskólana á Laugum og á Húsavík. Félagið kom að því að ganga frá vinnustaðasamningum með starfsmönnum Jarðborana við fyrirtækið auk þess að sjá um atkvæðagreiðslu um samninginn sem var samþykktur.

Þann 19. mars 2018 gengu Framsýn og Þingiðn frá sérkjarasamningi við Samtök atvinnulífsins vegna PCC BakkiSilikon hf. Gildistími samningsins er út árið 2018. Samningurinn nær til framleiðslustarfsmanna og iðnaðarstarfsmanna samtals 62 starfsmanna, þar af eru 10 félagsmenn innan Þingiðnar og 52 í Framsýn.

Um 111 starfsmenn koma til með að starfa hjá fyrirtækinu í þessum áfanga og verður mikill meirihluti þeirra í Framsýn. Áður en atkvæðagreiðslan fór fram um samninginn gafst starfsmönnum kostur á að taka þátt í tveimur kynningarfundum. Atkvæðagreiðsla um samninginn fór fram í lok fundanna og var samningurinn samþykktur samhljóða.

Almennt eru kjarasamningar sem Framsýn á aðild að í gegnum landssamböndin lausir um næstu áramót. Kjarasamningar Framsýnar við ríkið og sveitarfélög losna síðar eða 31. mars 2019.

Undirbúningur félagsins er hafinn og á næstu vikum verður farið í vinnustaðaheimsóknir til að kalla eftir kröfum félagsmanna. Þá verður einnig auglýst eftir tillögum frá félagsmönnum í næsta Fréttabréfi og á heimasíðu félagsins. Því miður virðist áhugi fólks fyrir almennum félagsfundum ekki vera til staðar. Því er að mati félagsins vænlegra til árangurs að standa fyrir vinnustaðaheimsóknum og auglýsa eftir kröfum félagsmanna. Það form virkar vel enda mikill áhugi til staðar hjá félagsmönnum að fá forystumenn Framsýnar í heimsókn á vinnustaði.

Vissulega voru það gríðarleg vonbrigði að aðildarfélög/sambönd Alþýðusambands Íslands skyldu ekki nýta sér ákvæði í kjarasamningum og segja upp samningunum í febrúar 2018 þegar þeir komu til endurskoðunar, enda forsendur brostnar.

Þrátt fyrir að meirihluti félagsmanna innan sambandsins vildi að samningunum yrði sagt upp dugði það ekki til þar sem meirihluta aðildarfélaga þarf til að þeir losni. Afgreiðslan fór fram á formannafundi Alþýðusambands Íslands í febrúar.

Framsýn talaði skýrt fyrir því að samningunum yrði sagt upp. Það er reyndar sorglegt að þau stéttarfélög sem lögðust gegn því að samningunum yrði sagt upp tali nú fyrir hörðum átökum um næstu áramót takist ekki að semja á nótum verkalýðshreyfingarinnar.

Hvernig væri að þessi félög létu verkin tala og stæðu í lappirnar með félögum eins og Framsýn sem lengi hefur farið fyrir þeim stéttarfélögum sem kalla eftir harðari kjarabaráttu. Það verður sérstaklega áhugavert að fylgjast með framvindu mála næstu mánuðina og hvort raunveruleg samstaða verði meðal aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands íslenskra verslunarmanna um að krefjast löngu tímabærra hækkana fyrir félagsmenn sambandanna. Framsýn kallar eftir því.

Hugsanlega þurfum við að búast við því að önnur stéttarfélög innan Starfsgreinasambandsins fyrir utan Verkalýðsfélag Akraness og Eflingu geri tilraun til að útiloka Framsýn frá samstarfi um mótun kröfugerðar á vegum sambandsins. Við höfum áður þurft að búa við slíkt viðmót frá forystu sambandsins. Þá er mikilvægt að eiga gott samstarf við VR um mótun endanlegrar kröfugerðar enda á sömu línu og Framsýn.

Framsýn verður seint sakað um að fylgja ekki eftir skoðunum félagsmanna beint og milliliðalaust inn á samningaborðið í Karphúsinu. Við höfum aldrei látið yfirlýsingar frá Alþýðusambandi Íslands, lágvörninni innan verkalýðshreyfingarinnar eða forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa áhrif á okkar skoðanir þegar kemur að kjara- og réttindamálum verkafólks.

Það er ljós í myrkrinu. Töluverð endurnýjun hefur átt sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar sem er afskaplega ánægjulegt. Kraftmiklir formenn eru komnir til starfa hjá VR, VM og Eflingu og þeir kalla eftir viðhorfsbreytingum. Boltinn er komin af stað og framundan eru frekari breytingar á forystusveit stéttarfélaga sem er vel.

Þá hefur Framsýn lengi barist fyrir því að kosið verði um embætti forsesta Alþýðusambands Íslands á hverjum tíma í beinni kosningu, það er að allir félagsmenn hafi atkvæðisrétt í allsherjaratkvæðagreiðslu. Það á ekki að líðast að fámenn klíka í skjóli fjölmennra stéttarfélaga innan ASÍ ráði valinu á hverjum tíma á æðsta embættismanni verkalýðshreyfingarinnar. Sá tími er löngu liðin.

Fyrir liggur að núverandi forseti Alþýðusambands Íslands nýtur ekki trausts félagsmanna Framsýnar frekar en forystu VR sem nýlega lýsti yfir formlegu vantrausti á hans störf. Framsýn tekur heilshugar undir vantraust VR og fyrir aðalfundinum liggur ályktun þess efnis.

Þá þarf að opna aðgengi aðildarfélaga að fundargerðum Alþýðusambandsins en þær eru lokaðar aðildarfélögunum.

Það er fullur vilji hjá formönnum Framsýnar, Verkalýðsfélags Akraness, VR og Eflingar að berjast fyrir því að verkalýðshreyfingin komist upp úr núverandi kyrrstöðu og láti verkin tala.

Þessir aðilar hafa myndað með sér samstarf um að berjast fyrir hagsmunum verkafólks. Þau kalla eftir nýjum viðhorfum verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda í garð þess hóps sem býr við hvað lökust kjörin í landinu.

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Fjölmargir hafa haft samband við fjórmenningana og hvatt þau til dáða meðan forysta Alþýðusambands Íslands hefur varað við skoðunum þeirra með yfirlýsingum og auglýsingu sem Framsýn brást við með því að senda frá sér yfirlýsingu 8. maí 2018 og er meðfylgjandi skýrslunni.

Framsýn stéttarfélag kallar eftir nýjum áherslum í verkalýðsbaráttu á Íslandi og hvetur félagsmenn stéttarfélaga innan Alþýðusambands Íslands til að vera virka og gefa kost á sér til starfa fyrir félögin. Liður í löngu tímabærri endurnýjun innan hreyfingarinnar er að kalla ungt fólk til starfa fyrir stéttarfélögin, líkt og Framsýn stéttarfélag gerir með því að halda úti öflugu ungliðaráði innan félagsins sem skipað er ungu fólki á aldrinum 18 ára upp í 35 ára aldur.

Hvað viðkemur atvinnuástandinu á félagssvæðinu þá fengu 137 félagsmenn Framsýnar greiddar atvinnuleysisbætur með mótframlagi á árinu 2017 samtals kr. 89.588.779,- frá Vinnumálastofnun. Árið áður fengu 109 félagsmenn Framsýnar greiddar atvinnuleysisbætur samtals með mótframlagi kr. 71.980.695,-.

Vissulega eru þetta háar tölur, þrátt fyrir það hefur atvinnuástandið verið með miklum ágætum.

Eins og kunnugt er hafa staðið yfir miklar framkvæmdir á félagssvæði Framsýnar. Fjöldi innlendra og erlendra verktaka hafa verið á svæðinu auk fjölda verkamanna, iðnaðarmanna og sérfræðinga. Það er því óhætt að segja að atvinnulífið iði um þessar mundir.

Framsýn hefur kappkostað að eiga gott samstarf við atvinnurekendur á svæðinu, ekki síst verktaka, sem koma að framkvæmdunum. Kjölfestan í atvinnumálum í Þingeyjarsýslum hefur lengi verið sjávarútvegur og landbúnaður auk ferðaþjónustu. Ekki er annað að sjá en að þessar greinar komi til með að halda velli og eflast á komandi árum þrátt fyrir að nokkuð sé sótt að þessum atvinnugreinum.

Um þessar mundir er PCC BakkiSilicon hf. að hefja starfsemi á Bakka. Væntanlega verður þar um að ræða öfluga atvinnugrein í iðnaði. Þá eru bundnar vonir við að með tilkomu Vaðlaheiðargangna muni atvinnusvæðið á Norðurlandi styrkjast enn frekar.

Á uppgangstímum er ekki síst mikilvægt að halda úti öflugu vinnustaðaeftirliti. Undanfarin ár hafa umsvifin í Þingeyjarsýslum verið í sögulegu hámarki, sérstaklega í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Fyrir rétt um tveimur árum var ráðinn sérstakur starfsmaður í vinnustaðaeftirlit á vegum stéttarfélaganna með stuðningi frá nokkrum aðilum sem komið hafa að framkvæmdunum á svæðinu.

Samstarf við aðrar eftirlitsstofnanir hefur verið með miklum ágætum, sérstaklega hafa félögin átt gott samstarf við Vinnueftirlitið. Nú þegar hillir undir að framkvæmdunum ljúki hefur verið ákveðið að draga aðeins úr eftirlitinu með því að halda úti formlega 50% starfi frá og með 1. maí 2018. Að sjálfsögðu munu aðrir starfsmenn stéttarfélaganna koma að eftirlitinu við reglubundnar heimsóknir á vinnustaði.

Í gegnum tíðina hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Framsýn stéttarfélag á tvö orlofshús, á Illugastöðum og í Dranghólaskógi, fjórar íbúðir í Kópavogi og eina í Reykjavík.

Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að Framsýn gekk frá kaupum á nýrri íbúð í Þorrasölum í síðustu viku þar sem félagið átti fyrir þrjár íbúðir. Þannig vill félagið koma til móts við sífellt fjölgandi félagsmenn þar sem núverandi íbúðir eru uppteknar flesta daga. Næsta verkefni í íbúðarkaupum, utan Þingeyjarsýslna, verður væntanlega á Akureyri. Áhugi er fyrir því innan stjórnar Framsýnar að kanna kaup á íbúð á Akureyri, eigi síðar en á næsta ári.

Framsýn hefur lagt töluvert upp úr orlofsmálum fyrir félagsmenn með því að bjóða þeim upp á gott aðgengi að orlofshúsum, íbúðum, tjaldstæðum, hótel- og gistiheimilum. Þá hefur verið boðið upp á sumarferðir og íbúð á Spáni.

Þegar orlofsmál eru til umræðu er rétt að nefna að félagsmenn spöruðu sér um 52 milljónir á síðasta ári með kaupum á flugmiðum, miðum í Hvalfjarðargöngin og á hótel- og gistiheimili. Til gamans má geta þess að Skrifstofa stéttarfélaganna seldi 4.470 flugmiða á síðasta ári. Framsýn hefur með samningum við Flugfélagið Erni tryggt félagsmönnum óbreytt verð kr. 8.900 per flugmiða út árið 2018.

Þess ber að geta að stéttarfélögin hafa nú tekið upp nýtt orlofskerfi sem ætlað er að auðvelda félagsmönnum að panta flug og fleira í gegnum netið með því að fara inn á heimasíðu stéttarfélaganna, framsyn.is. Nýja kerfið auðveldar félagsmönnum að kaupa flugmiða um leið og það dregur úr álaginu á skrifstofunni sem er hið besta mál.

Það getur enginn efast um mikilvægi stéttarfélaga, ekki síst þegar kemur að því að efla starfsmenntun félagsmanna. Framsýn er mjög umhugað um þennan málaflokk og heldur úti kynningarstarfsemi auk þess sem félagsmenn hafa aðgengi að öflugum styrkjum til starfsmenntunar.

Á árinu 2017 fengu 313 félagsmenn greiddar kr. 12.584.237,- í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum og eru það endurgreiðslur vegna náms eða námskeiða. Sambærileg tala fyrir árið 2016 var kr. 11.548.910,-. Að auki fengu fjórir félagsmenn styrki úr Fræðslusjóði Framsýnar kr. 189.000,-. Samtals fengu félagsmenn því greiddar 12.773.237,- í námsstyrki á árinu 2017, það er með styrkjum úr Fræðslusjóði Framsýnar.

Starfsmennastyrkir til félagsmanna í Framsýn hækkuðu um síðustu áramót og verða allt að 100 þúsund krónur á ári eða 75% af kostnaði við námið. Ónotaður réttur til þriggja ára verður kr. 300 þúsund hjá almennum félagsmönnum innan félagsins. Rétturinn er aðeins hærri hjá verslunar- og skrifstofufólki. Þessir góðu styrkir koma í gegnum þá fræðslusjóði sem Framsýn á aðild að samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Fræðslusjóðirnir eru fjármagnaðir með framlögum frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisstofnunum sbr. ákvæði þar um. Það á þó ekki við um Fræðslusjóð Framsýnar sem hefur ekki fastan tekjustofn.

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að Framsýn er deildaskipt félag. Auk þess að hafa almenna deild sem flestir tilheyra, eru tvær formlegar deildir innan félagsins, það er Sjómannadeild og Deild verslunar- og skrifstofufólks. Jóna Matt og Jakob Gunnar Hjaltalín fara fyrir þessum deildum. Þá er innan félagsins starfandi ungliðaráð sem fer með málefni ungs fólks innan félagsins. Guðmunda Steina Jósefsdóttir fer fyrir ungliðaráðinu. Draumurinn er að efla þessa starfsemi innan Framsýnar með það að markmiði að hvetja ungt fólk til starfa fyrir félagið á komandi árum.

Áhugaverðum áfanga í sögu verkalýðsbaráttu í Þingeyjarsýslum var náð þann 28. apríl 2018. Þá voru liðin 100 ár frá stofnun Verkakvennafélagsins Vonar. Innan stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar var einhugur um að minnast þessara tímamóta með virðingu. Ráðist var í að gefa út ljóðabók með völdum ljóðum eftir Björgu Pétursdóttur en hún fór fyrir þeim konum sem stofnuðu verkakvennafélagið á sínum tíma, það er 28. apríl 1918. Verkefnið var unnið með afkomendum Bjargar. Ásprent sá um setningu og prentun á bókinni „Tvennir tímar“.

Jafnframt var ákveðið að láta stækka gamlar ljósmyndir af konum við störf og gefa út afmælisblað sem er væntanlegt til lesenda á næstu vikum. Egill Páll Egilsson fjölmiðlafræðingur ritstýrir blaðinu.

Varðandi ljósmyndirnar þá eiga þær flestar það sameiginlegt að vera frá starfstíma Vonar. Pétur Jónasson ljósmyndari á Húsavík tók verkið að sér og skilaði því af sér með miklum sóma.

Ljósmyndunum verður fljótlega komið fyrir í húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26, í Þröskuldi litla fundarsalnum á efri hæðinni.

Vegna afmælisins var blásið til afmælisveislu í Menningarmiðstöð Þingeyinga þann 28. apríl sl. Sérstakur gestur hátíðarinnar var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem tók við fyrstu ljóðabókinni enda útgáfudagur bókarinnar þann sama dag. Hún ásamt formanni og varaformanni Framsýnar flutti ávarp auk Birgis Þórs Þórðarsonar afkomanda Bjargar Pétursdóttur. Hann þakkaði Framsýn sérstaklega fyrir samstarfið fyrir hönd afkomenda og sagði bókina öllum til mikils sóma. Eftir flutning ávarpa var boðið upp á tónlistaratriði, kaffi og veitingar með gömlu sniði þar sem kleinur, pönnukökur og randalín voru í boði.

Við þetta tækifæri færði Framsýn Kvenfélagsambandi Suður Þingeyinga 150 ljóðabækur og afkomendum Bjargar Pétursdóttur 100 bækur að gjöf. Þá var Menningarmiðstöð Þingeyinga fært hljóðkerfi að gjöf til að nota við menningarviðburði á vegum miðstöðvarinnar. Starfsmenn miðstöðvarinnar aðstoðuðu Framsýn við að safna myndunum af konum við störf, en þær eru fengnar úr Ljósmyndasafni Þingeyinga. Með gjöfinni vildi félagið þakka fyrir samstarfið, en hljóðkerfið kemur að góðum notum í öflugu starfi Menningarmiðstöðvarinnar. Allir þessir aðilar þökkuðu vel fyrir gjafirnar, Kvenfélagasambandið, afkomendur Bjargar og Menningarmiðstöð Þingeyinga.

Framsýn stéttarfélag hefur komið að mörgum öðrum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra.

Félagið sendi frá sér 7 ályktanir og yfirlýsingar milli aðalfunda sem eru meðfylgjandi skýrslunni.

Félagið stóð fyrir sumarkaffi á Raufarhöfn 9. júní 2017 á Kaffi Ljósfangi. Boðið tókst að venju mjög vel en um 120 gestir þáðu boð félagsins, sem fram fór í blíðskaparveðri.

Framsýn stóð fyrir sameiginlegum félagsfundi með Þingiðn í júní 2017 um breytingar á framlögum til lífeyrissjóða. Fulltrúar frá Lsj. Stapa komu í heimsókn og gerðu grein fyrir breytingunum.

Ákveðið var á fundi í ágúst að kaupa stofnfé í Sparisjóði Suður- Þingeyinga fyrir kr. 3.300.000. Félagið leit á þetta sem góðan fjárfestingakost auk þess sem markmiðið var að efla um leið starfsemi sparisjóðsins í heimabyggð.

Eins og fram hefur komið stóð Framsýn fyrir fjölmörgum vinnustaðafundum á síðasta starfsári. Sá fjölmennasti var haldinn á Bakka í byrjun júlí þegar fundað var með starfsmönnum Beck & Pollitzer á Íslandi. Fyrirtækið vann við að setja upp vélar og tæki í verksmiðju PCC á Bakka. Rúmlega 180 manns mættu á fundinn. Um er að ræða fjölmennasta vinnustaðafund í sögu Framsýnar.

Stjórn og trúnaðarráð samþykkti í desember 2017 aðgerðaáætlun gegn einelti og kynbundnu ofbeldi fyrir Framsýn stéttarfélag. Áætlunin er aðgengileg á vef félagsins.

Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna stóðu fyrir opnu húsi á aðventunni, í byrjun desember líkt og undanfarin ár. Boðið var upp á kaffi, tertur og tónlistaratriði. Fjölmargir lögðu leið sína til stéttarfélaganna og þáðu veitingar.

Félagið niðurgreiddi leikhúsmiða til félagsmanna á sýningar á vegum Leikfélags Húsavíkur og Leikdeildar Eflingar. Leikritin voru til sýningar eftir áramótin 2018.

Framsýn stóð fyrir trúnaðarmannanámskeiði í byrjun mars 2018. Námskeiðið var óvenju fjölmennt en um 30 manns tóku þátt í námskeiðinu. Félagsmálaskóli alþýðu sá um skipulagningu námskeiðsins sem stóð yfir í tvo daga. Það þarf ekki að hafa mörg orð yfir mikilvægi þess að hafa öfluga trúnaðarmenn á vinnustöðum. Hvað það varðar er Framsýn afar vel sett um þessar mundir og verður svo vonandi áfram.

Þann 16. maí 2018 stóð Framsýn í samstarfi við Íslandsbanka fyrir fjölmennum fræðslufundi sem bar yfirskriftina „Fjármál við starfslok“. Fundurinn sem var haldinn í fundarsal stéttarfélaganna var fjölmennur en um 60 einstaklingar mætu á fundinn.

Þó nokkuð er um að forsvarsmenn félagsins séu beðnir um að flytja erindi á fundum og ráðstefnum auk þess að taka þátt í umræðuþáttum um velferðar og verkalýðsmál enda greinilegt að starf félagsins nýtur mikillar virðingar í þjóðfélaginu.

Félagið hefur komið að því að styðja við bakið á íþróttafélögum á svæðinu, sérstaklega Völsungi, HSÞ og Eflingu.

Töluverð ásókn er í félagið frá starfsfólki sem starfar ekki á félagssvæði Framsýnar. Stundum er hægt að verða við óskum viðkomandi aðila en almenna reglan er sú að menn greiði í þau félög sem eru starfandi á því svæði sem viðkomandi starfar á. Þessa reglu vill Framsýn stéttarfélag virða.

Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 5 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi og tveir starfsmenn eru í hlutastarfi við vinnustaðaeftirlit og þrif. Til viðbótar eru fjórir starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn.

Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.

Tekin hefur verið ákvörðun um að hætta samstarfi við Mandat lögmannstofu sem þjónustað hefur stéttarfélögin til fjölda ára vegna málefna er tengjast kjara- og réttindamálum félagsmanna. Nú ber svo við að reyndustu lögmennirnir eru hættir á stofunni. Því var ákveðið að semja við Jón Þór Ólason lögmann um að taka við keflinu og sjá um mál sem stéttarfélögin þurfa að vísa til lögmanna til frekari vinnslu.

Þá hafa verið gerðar umtalsferðar breytingar á bókaldskerfi stéttarfélaganna og nýtt kerfi tekið upp, svokallað DK- bókhaldskerfi. Því er ætlað að einfalda og auðvelda starfsmönnum að færa bókhaldið og gera það um leið skilvirkara.

Eins og fram kemur í skýrslunni stendur stéttarfélagið Framsýn mjög sterkt um þessar mundir og hefur reyndar gert til fjölda ára. Fyrir aðalfundinum liggja fyrir tillögur um að hækka verulega styrki til félagsmanna í gegnum sjúkrasjóð félagsins. Markmiðið er nú sem endranær að reka félagið vel með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.

Styrkur félagsins kemur auk þess ekki síst fram í góðri þjónustu við félagsmenn, góðu aðgengi að sjóðum félagsins, öflugum starfsmenntastyrkjum, gangnamiðum og öðru því sem er í boði á vegum félagsins eins og orlofshúsum, orlofsíbúðum, hótelum og mjög ódýru flugi um Húsavíkurflugvöll. Aðkoma félagsmanna að þessari þjónustu og styrkjum færir félagsmönnum á hverju ári milljóna tugi. Það er góð kjarabót að vera félagsmaður í stéttarfélagi.

Í starfi stéttarfélaga er mikilvægt að sinna góðu upplýsingastreymi til félagsmanna. Framsýn verður ekki sakað um að gera það ekki. Félagið heldur úti heimasíðu og gefur reglulega út Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna.

Hvernig byggja menn upp öflugt stéttarfélag til að ná fram þessum markmiðum? Það gera menn með virkum félagsmönnum, hæfu starfsfólki og öflugri stjórn, trúnaðarráði og trúnaðarmönnum á vinnustöðum. Fólki sem er tilbúið að takast á við krefjandi störf félagsins á hverjum tíma og gefa allt í starfið. Það er ekki dagvinna að reka stéttarfélag svo vel fari. Þess í stað verða menn að standa vaktina í 24 tíma á sólarhring. Þegar þessir þættir spila saman eins og góð hljómsveit verður til öflugt stéttarfélag félagsmönnum og samfélaginu til hagsbóta.

Höfum í huga að það er ekki sjálfgefið að eiga aðild að öflugu stéttarfélagi.

Ég vil að lokum þakka öllum þeim fjölmörgu félagsmönnum sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á höndum, sem og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu. Ekki síst þeim sem hverfa nú úr trúnaðarstörfum fyrir félagið um leið og nýir fulltrúar eru boðnir velkomnir.

Það verður töluverð endurnýjun í stjórn og trúnaðarráði á þessum aðalfundi sem er afar ánægjulegt og eðlileg þróun.

Hafið öll kærar þakkir fyrir ykkar óeigingjarna starf, þið eruð öll frábær sem og félagsmenn Framsýnar. Án ykkar væri Framsýn ekki eitt öflugasta stéttarfélag landsins. Til hamingju með það kæru félagar!

 

 

Deila á