Formaður Framsýnar fór í hefðbundna eftirlitsferð í Vaðlaheiðargöng í vikunni. Umræður urðu um framkvæmdina við forsvarsmenn aðalverktakans á staðnum og nokkur önnur mál sem tengjast starfsmönnum. Um 100 manns hafa verið við störf við lokafrágang í göngunum og við vegagerð til og frá göngunum. Reiknað er með að göngin verði tekin í notkun á haustdögum sem verður mikilvæg samgöngubót fyrir vegfarendur sem leið eiga um Norðurland.
Í lok samtalsins urðu léttar og óábyrgar umræður um fréttir síðustu daga um að eyfirskt loft komi til með að streyma vegna staðhátta úr Eyjafirði í gegnum göngin yfir í Þingeyjarsýslu. Fulltrúi stéttarfélaganna taldi þetta ekki heillavænlega þróun. Þingeyingar hefðu aldrei verið taldir loftlausir enda stútfullir af heimsins besta lofti, nær væri að beina fersku og ómenguðu lofti úr Þingeyjarsýslu yfir í Eyjafjörð til að bæta heilsufar nágrannanna handan Vaðlaheiðar. Mikilvægt væri að koma upp blásurum í göngunum sem tryggðu Eyfirðingum heilnæmt loft úr austri. Þörfin væri mikil eins og vísan sem Flosi Ólafsson orti á sínum tíma staðfesti:
„Frá Akureyri er um það bil
ekki neins að sakna.
En þar er fagurt þangað til
þorpsbúarnir vakna.“
Framsýn fór í reglubundna eftirlitsferð í vikunni í Vaðlaheiðargöng.