Stéttarfélögin, Framsýn, Þingiðn, Verkalýðsfélag Þórshafnar og Starfsmannafélag Húsavíkur hafa ákveðið að bjóða félagsmönnum upp á sama góða verðið á flugmiðum á vegum félaganna milli Húsavíkur og Reykjavíkur með flugfélaginu Erni á árinu 2018. Verðið verður áfram kr. 8.900,- per flugferð.
Á síðasta ári seldu félögin um 4000 flugmiða til félagsmanna en í heildina er ekki ólíklegt að um 20 þúsund farþegar hafi farið um flugvöllinn á árinu 2017. Staðfestar tölur liggja ekki fyrir.
Ljóst er að þetta er ein besta kjarabót sem félögin geta boðið upp á enda hafa fjölmargir félagsmenn lýst yfir mikilli ánægju sinni með framtak félaganna að bjóða þeim upp á ódýrt flug milli Húsavíkur og Reykjavíkur. „Þetta eru aukin lífsgæði eins og einn eldi félagsmaður orðaði það, nú get ég farið suður og heimsótt börn og barnabörn án þess að það kosti augun úr.“