Lélegur kjarasamningur og krafa um breytingar á lífeyrissjóðakerfinu

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar var haldinn í gær og var vel sóttur. Að venju urðu líflegar umræður um málefni sjómanna ekki síst kjaramál. Fram kom á fundinum að sjómenn eru mjög óánægðir með síðasta kjarasamning Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Eða eins og einn fundarmaðurinn orðaði það „kjarasamningurinn er ömurlegur“. Jafnframt urðu umræður um félagsaðild að sjómannafélögum og verkfallsbætur. Menn lýstu yfir ánægju sinni með sterkan verkfallssjóð Framsýnar sem hefði komið sér vel fyrir sjómenn innan félagsins í verkfallinu í byrjun árs sem fengu um 12 milljónir úr sjóðnum meðan dæmi væru um að félög innan Sjómannasambandsins hefðu átt í erfiðleikum með að greiða sjómönnum út verkfallsbætur í 10 vikna verkfalli sjómanna. Mikilvægt væri að félögin huguðu að því að byggja upp sterka verkfallssjóði innan félaganna.

Ljóst er að sjómenn innan Framsýnar eru ekki sérstaklega ánægðir með núverandi lífeyrissjóðakerfi og kom fram hörð gagnrýni á kerfið og hvernig sjóðirnir hafa verið ávaxtaðir á undanförnum árum. Mikilvægt væri að fækka lífeyrissjóðum með sameiningum og þá ættu sjóðsfélagar að hafa meira val um í hvaða lífeyrissjóði þeir greiddu. Fundurinn samþykkti að senda frá sér svohljóðandi ályktun:

„Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar telur mikilvægt að fækka lífeyrissjóðum með hagsmuni  sjóðsfélaga að leiðarljósi. Núverandi fyrirkomulag er allt of dýrt að mati sjómanna innan Framsýnar og kallar á frekari hagræðingu. Þá telur fundurinn að auka eigi frelsi sjómanna til að velja sér lífeyrissjóð.„

Á fundinum var einnig gengið frá kjöri á stjórn deildarinnar en hún var endurkjörin, hana skipa fyrir næsta starfsár:

Jakob Gunnar Hjaltalín formaður

Heiðar Valur Hafliðason varaformaður

Björn Viðar ritari

Kristján Hjaltalín meðstjórnandi

Reynir Hilmarsson meðstjórnandi

Formaður og varaformaður deildarinnar voru ánægðir með fundinn sem var mjög vel sóttur. Þetta eru þeir Jakob Gunnar Hjaltalín formaður og Heiðar Valur Hafliðason varaformaður.

Ofurhetjurnar, Brynjar og Hilmar þungt hugsi á fundinum.

Björn Viðar, Heiðar og Gunnar Sævars hafa skoðanir á flestum hlutum, ekki síst málefnum sjómanna.

Skýrsla stjórnar tekin til umræðu sem er hér meðfylgjandi.

Ársskýrsla stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar

 Ágætu sjómenn!

Ég vil fyrir  hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.

Fjöldi sjómanna í deildinni:

Alls eru 88 sjómenn skráðir í deildina í árslok 2017, það eru starfandi sjómenn og þeir sjómenn sem hætt hafa sjómennsku vegna aldurs eða örorku.  Af þessum 88 sjómönnum greiddu 74 sjómenn félagsgjald til félagsins á árinu sem er að líða.

Stjórnarmenn og fundir:

Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Heiðar Valur Hafliðason varaformaður, Björn Viðar ritari, Reynir Hilmarsson og Kristján Hjaltalín meðstjórnendur.

Stjórnin hélt einn formlegan stjórnarfund á árinu auk þess sem stjórnarmenn voru í símasambandi þegar á þurfti að halda. Formaður deildarinnar situr í stjórn Framsýnar sem fundar reglulega. Þar hefur hann fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við stjórn og starfsmenn Framsýnar.

 

Deildin stóð fyrir tveimur félagsfundum með sjómönnum annars vegar 20 janúar og hins vegar 18. febrúar. Báðir fundirnir tengdust verkfalli sjómanna sem stóð fram í febrúar 2017.

Sjómannadeild Framsýnar og reyndar aðalstjórn félagsins kom jafnframt að ýmsum málum er varða sjómenn á starfsárinu. Formaður deildarinnar hefur einnig sótt fundi á vegum Sjómannasambandsins á hverjum tíma. Í haust var haldinn formannafundur SSÍ á Siglufirði þar sem málefni sjómanna voru til umræðu.

Heiðrun sjómanna og sjómannadagurinn:

Sjómannadeildin heiðraði tvo sjómenn á Sjómannadaginn á Húsavík. Árið 2017 voru sjómennirnir Viðar Sigurðsson og Ingvar Hólmgeirsson heiðraðir. Athöfnin fór fram á veitingastaðnum Naustinu og tókst að venju mjög vel.

Sjómannadeildin kom að því að styrkja hátíðarhöld sjómannadagsins á Húsavík og á Raufarhöfn með fjárstuðningi auk þess að standa fyrir sumarkaffi á Raufarhöfn á föstudeginum fyrir sjómannadaginn. Deildin hefur gert það í nokkur ár, en kaffiboðið hefur notið mikilla vinsælda meðal bæjarbúa og gesta sem átt hafa leið um Raufarhöfn.

 

Kjaramál:

Sjómenn fóru inn í nýtt ár í kjaradeilu við útgerðarmenn. Áður höfðu samtök sjómanna gengið frá kjarasamningi við SFS sem var felldur af sjómönnum, það er í lok árs 2016.

Svo fór að lokum að skrifað var undir nýjan kjarasamning 18. febrúar 2017. Atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn hófst á vegum Sjómannadeildar Framsýnar kl. 17:00 laugardaginn 18. febrúar og lauk kl. 17:00 sunnudaginn 19. febrúar. Strax í kjölfarið var talið á Skrifstofu stéttarfélaganna þar sem ekki tókst að koma kjörgögnum suður í tæka tíð en talið var sameiginlega meðal aðildarfélaga Sjómannasambandsins sem áttu aðild að samningnum hjá Ríkissáttasemjara. Lögreglan á Húsavík var fengin til að telja. Viðstaddir talninguna voru: Ingvar Berg Dagbjartsson varðstjóri og Guðmundur Helgi Bjarnason lögregluþjónn hjá embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar.

Á kjörskrá voru 31 félagsmaður í Sjómannadeild Framsýnar. Alls greiddu 21 atkvæði eða 68% þeirra sem voru á kjörskrá. Niðurstöðunni var komið til Ríkissáttasemjara strax um kvöldið, þann 19. febrúar með rafrænum hætti. Þar sem um sameiginlega atkvæðagreiðslu var um að ræða meðal aðildarfélaga Sjómannasambandsins liggur ekki fyrir hvernig sjómenn í Sjómannadeild Framsýnar greiddu atkvæði.

Svo fór að kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi var samþykktur með naumum meirihluta eftir 10 vikna verkfall. Á landsvísu var samningurinn samþykktur með ríflega 52% atkvæða.

Þá ber að geta að enn er ósamið er við Landssamband smábátaeigenda vegna sjómanna á smábátum.  Ekki er að sjá að samið verði í bráð þar sem töluvert ber í milli í þeim viðræðum.

Verkfallsbætur

Meðan á verkfalli sjómanna stóð greiddi Vinnudeilusjóður Framsýnar sjómönnum rúmlega 12 milljónir króna í verkfallsbætur til 32 tveggja sjómanna innan félagsins. Sjóðurinn er fjármagnaður m.a. með hlutfalli af félagsgjöldum sjómanna. Sjóðurinn kom að góðum notum fyrir sjómenn í verkfallinu og gerði félaginu kleift að greiða hærri verkfallsbætur en önnur sjómannafélög treystu sér til að gera. Dæmi eru um að félög sjómanna standi afar illa fjárhagslega eftir verkfallið sem er mikið áhyggjuefni.

 Fræðslumál:

Sjómannadeildin minnir sjómenn reglulega á Sjómennt. Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Það er von okkar að þessi sjóður verði vel nýttur jafnt af útgerðarfyrirtækjum sem og sjómönnum sjálfum. Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess komið að því að styðja við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi. Þeir sem vilja fræðast frekar um úthlutunarreglur sjóðina er bent á að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna sem veitir frekari upplýsingar.

Skrifstofa stéttarfélaganna:

Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 6 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi, reyndar er einn af þeim í 90% starfi  og einn starfsmaður er í hlutastarfi við almenn þrif og ræstingar. Til viðbótar eru þrír starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Af þeim 6 starfsmönnum sem starfa á skrifstofunni er einn kostaður af VIRK starfsendurhæfingarsjóði og einn að hluta af öðrum stéttarfélögum/samböndum og verkkaupum er tengist framkvæmdunum á Bakka og Þeistareykjum. En eins og kunnugt er réð Framsýn sérstakan starfsmann í vinnustaðaeftirlit á árinu 2016 sem kostaður er að hluta af Landsvirkjun, Landsneti, Rafiðnaðarsambandi Íslands, VM og Samiðn þar sem þessir aðilar eiga mikið undir því að framkvæmdirnar gangi vel á svæðinu. Fjárhagslegur stuðningur þessara aðila við rekstur á eftirlitsfulltrúanum er að renna út um þessar mundir. Framtíð hans hjá stéttarfélögunum er til skoðunar.

Öflugt starf og upplýsingamál:

Almennt hefur starfsemi Framsýnar gengið vel á árinu, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra- og starfsmenntasjóðum. Þá undirritaði félagið á dögunum nýjan samning við Flugfélagið Erni sem tryggir félagsmönnum áframhaldandi afsláttarkjör á flugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur á árinu 2018. Verðið verður áfram kr. 8.900,- per flugferð.

Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að þið séuð nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is sem er mjög virk og flytur reglulega fréttir af starfsemi félagsins svo ekki sé talað um Fréttabréf stéttarfélaganna sem gefið er út á hverju ári.

Í lokin vil ég þakka sjómönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum.

Jakob Gunnar Hjaltalín

 

 

 

Deila á