Samkomulag um launaþróunartryggingu til starfsmanna ríkis var undirritað í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í morgun. Laun félagsmanna í aðildarfélögum ASÍ sem starfa hjá ríkinu munu hækka um að meðaltali 1,6 prósent vegna samkomulagsins og laun félaga í BSRB sem starfa hjá ríkinu um 1,3 prósent. Launaþróunartryggingin er afturvirk og gildir frá 1. janúar 2017.
Samkomulagið sem undirritað var í dag er gert í kjölfar rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins frá október 2015. Aðild að samkomulaginu eiga íslenska ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Alþýðusamband Íslands, BSRB og Samtök atvinnulífsins.
Í rammasamkomulaginu er kveðið á um að launaþróun þeirra sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum verði ekki lakari en á almennum vinnumarkaði. Með því er ætlunin að tryggja að laun opinberra starfsmanna sitji ekki eftir í almennri launaþróun.
Horft er til þróunar launa á almenna markaðinum annars vegar og hjá þeim félagmönnum sem starfa hjá ríkinu hins vegar á tímabilinu nóvember 2013 til nóvember 2016. Eins og fram kemur í rammasamkomulaginu verður launaþróunin mæld áfram og leiðrétt vegna áranna 2017 og 2018, ef tilefni er til, þegar þær tölur liggja fyrir.
Laun félagsmanna ASÍ og BSRB sem starfa hjá sveitarfélögum hafa hækkað meira en laun á almenna markaðinum á tímabilinu og hækka því ekki að þessu sinni. Launaþróun þessara hópa verður mæld áfram og borin saman við launaþróun á almennum vinnumarkaði út gildistíma rammasamkomulagsins í árslok 2018.
Alþýðusambandið telur þetta samkomulag mikilvægt gagnvart félagsmönnum sínum hjá ríki og sveitarfélögum til að tryggja að launaþróun þeirra verði ekki lakari en á almennum vinnumarkaði. ASÍ telur jafnframt að það skjóti skökku við að á sama tíma og ríkið semur við fulltrúa tekjulægstu starfsmanna sinna um 1,6% launaþróunartryggingu til að mæta mun á launaþróun á almennum og opinberum vinnumarkaði skuli kjararáð ítrekað úrskurða um hækkanir sem nema tugum prósentna til hæst launuðu starfsmanna ríkisins. Það er miður að ákvæði rammasamkomulagsins nái ekki til úrskurða kjararáðs og undirstrikar það enn frekar það óréttlæti sem viðgengst gagnvart þessum félögum okkar sem starfa hjá ríkinu og öðru launafólki.