Af og til fáum við fyrirspurnir um fæðingarorlof hingað til okkar á Skrifstofu stéttarfélaganna. Það á sérstaklega við ef um einhverskonar undantekningar er að ræða eins og ef meðganga er erfið og verðandi móðir neyðist til þess að hætta að vinna fyrr en áætlað er. Í slíkum tilfellum er möguleiki á að fá greiðslur úr fæðingarorlofssjóði fyrir fæðingu. Um þessi tilfelli segir á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs:
„Sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði skv. b-lið 2. mgr. 13. gr. a. (þungaðar konur sem eru að fá greiddar atvinnuleysisbætur) meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skal hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar niður frá þeim tíma og hefst þá hið eiginlega fæðingarorlof. Með umsókn um lengingu fæðingarorlofs þarf að fylgja læknisvottorð sérfræðilæknis sem rökstyðja skal þörf fyrir framlengingu og staðfesting vinnuveitanda og/eða Vinnumálastofnunar, eftir því sem við á, þar sem fram kemur hvenær umsækjandi hætti störfum, hvenær launagreiðslur féllu niður og hvenær veikindaréttur var fullnýttur‟.