Fyrir helgina var haldinn síðasti stjórnarfundurinn á árinu í Fræðslusjóðnum Landsmennt sem Framsýn á aðild að líkt og 15 önnur stéttarfélög innan Starfsgreinasambands Íslands. Stjórnarformaður sjóðsins er Aðalsteinn Árni Baldursson. Á fundinum var m.a. samþykkt að gera breytingar á styrkjum til félagsmanna sjóðsins, það er til hækkunar, frá og með næstu áramótum. Það er afar gleðilegt að sterk staða sjóðsins skuli leiða til þess að auka réttindi félagsmanna varðandi endurgreiðslur vegna náms- eða námskeiða sem þeir sækja. Heimasíða stéttarfélaganna mun fjalla sérstaklega um breytingarnar þegar búið verður að útfæra þær frekar. Í stjórn sjóðsins eru sex fulltrúar, þrír frá aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins sem aðild eiga að sjóðnum og þrír frá Samtökum atvinnulífsins. Guðrún Eyjólfsdóttir sem setið hefur í stjórn sjóðsins undanfarin ár lét af störfum á fundinum eftir farsælt og gott starf fyrir sjóðinn. Í hennar stað kemur Bergþóra Halldórsdóttir lögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins. Um leið og Guðrúnu eru þökkuð vel unnin störf í þágu Landsmenntar er Bergþóra boðin velkomin til starfa í stjórn sjóðsins.
Tvær magnaðar, Kristín Njálsdóttir hefur verið forstöðumaður Fræðslusjóðsins Landsmenntar frá stofnun hans árið 2000. Með henni er sú frábæra kona ,Guðrún Eyjólfsdóttir, sem hætti í stjórn sjóðsins í síðustu viku eftir farsælt starf.