Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur var haldinn í gær, 8. júní. Dagskrá fundarins var með hefðbundnum hætti, formaður flutti skýrslu sína og ársreikningur fyrir árið 2016 var afgreiddur. Þar kemur m.a. fram að rekstur félagsins gekk með ágætum á árinu 2016, félagsgjöld hækkuðu lítillega en útgjöld drógust verulega saman. Núverandi stjórn hefur yfirfarið kostnaðarþætti félagsins og dregið úr kostnaði þar sem það er mögulegt. Einnig hjálpar til að tilkostnaður vegna samningamála var í lágmarki á árinu 2016. Jákvæð afkoma var af öllum sjóðum félagsins.
Á fundinum var nokkur umræða um tilhögun útleigu orlofsíbúar félagsins og umhirðu um hana. Stjórn var falið að fara yfir alla þætti sem varðar rekstur íbúðarinnar í samvinnu við starfsmenn félagsins. Kosið var í stjórn og nefndir félagsins. Eftirtaldir skipa þessar trúnaðarstöður:
Formaður Helga Þuríður Árnadóttir (er á mynd að ofan ásamt formanni Framsýnar og formanni Þingiðnar), ritari Jóhanna Björnsdóttir, gjaldkeri Helga Eyrún Sveinsdóttir. Varamenn í stjórn eru Berglind Erlingsdóttir og Guðrún Ósk Brynjarsdóttir. Endurskoðendur félagsreikninga, Tryggvi Jóhannsson, Guðmundur B. Guðjónsson og til vara Anna Ragnarsdóttir. Orlofsnefnd Karl Halldórsson, Sveinn Hreinsson og Arna Þórarinsdóttir. Ferðanefnd Guðrún Kristín Jóhannsdóttir, Fanney Hreinsdóttir og Díana Jónsdóttir. Fulltrúar í stjórn Starfsmenntunarsjóðs STH eru Helga Þuríður Árnadóttir formaður og Guðrún Ósk Brynjarsdóttir.
Anna María Þórðardóttir og Guðrún Guðbjartsdóttir létu af trúnaðarstöðum fyrir félagið, þeim eru færðar þakkir fyrir gott framlag til félagsins.