Félagsmenn fengu greiddar kr. 71.980.695,- í atvinnuleysisbætur með móttframlagi

Atvinnumál voru til umræðu á aðalfundi Framsýnar. Þar kom m.a. fram að atvinnuástandið á félagssvæðinu hefur verið með miklum ágætum og því hefur lítið verið um atvinnuleysi. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun fengu 109 félagsmenn Framsýnar greiddar atvinnuleysisbætur á árinu 2016 samtals kr. 66.648.792,-. Með mótframlagi kr. 5.331.903,- námu heildargreiðslur alls kr. 71.980.695,-.

Sambærilegar tölur fyrir árið 2015 eru eftirfarandi.  Alls fengu 157 félagsmenn Framsýnar greiddar atvinnuleysisbætur á árinu 2015 samtals kr. 102.582.480,-. Með mótframlagi kr. 8.206.598,- námu heildargreiðslur alls kr. 110.789.078,-.

Þessar tölur staðfesta mjög gott atvinnuástand á félagssvæði Framsýnar.

Það fer ekki framhjá neinum að miklar framkvæmdir eiga sér nú stað víða í Þingeyjarsýslum. Fjöldi innlendra og erlendra verktaka er á svæðinu auk fjölda verkamanna, iðnaðarmanna og sérfræðinga. Það er því óhætt að segja að atvinnulífið iði um þessar mundir.

Framsýn hefur kappkostað að eiga gott samstarf við atvinnurekendur á svæðinu, ekki síst verktaka, sem koma að framkvæmdunum. Fulltrúum félagsins hefur verið boðið að sitja í öryggisnefndum á vegum verktakana og verkkaupana og sitja þeir nú í flestum þeirra.

Kjölfestan í atvinnumálum í Þingeyjarsýslum hefur lengi verið sjávarútvegur og landbúnaður. Ekki er annað sjá en að þessar greinar komi til með að halda velli og eflast á komandi árum þrátt fyrir að nokkuð sé sótt að þessum atvinnugreinum.

Rétt er að geta þess að ferðaþjónustan eflist ár frá ári og nú hyllir undir nýja öfluga atvinnugrein, iðnað, með tilkomu verksmiðju PCC á Bakka sem á að hefja starfsemi í lok þessa árs. Um 100 starfsmenn koma til með að vinna hjá fyrirtækinu. Þá eru bundnar vonir við að með tilkomu Vaðlaheiðargangna muni atvinnusvæðið á Norðurlandi styrkjast enn frekar.

Atvinnulífið varð fyrir blóðtöku þegar Reykfiskur ehf. hætti starfsemi þann 1. maí sl. Fyrirtækið hefur undanfarin ár rekið fiskvinnslu á Húsavík. Um 20 starfsmenn hafa starfað hjá fyrirtækinu. Því miður hefur störfum í fiskvinnslu á svæðinu fækkað umtalsvert á síðustu árum.

 

 

Deila á